Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, er á meðal keppenda á DP World móti sem fram fer í Suður-Kóreu 27.-30. apríl.
Mótið heitir Korea Championship Presented by Genesis og fer það fram á golfvelli sem Jack Nicklaus hannaði og ber völlurinn nafn bandarísku goðsagnarinnar.
Nánari upplýsingar um mótið í Kóreu, rástímar og staða – smelltu hér:
DP World Tour er sterkasta atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki. Guðmundur Ágúst tryggði sér keppnisrétt á DP World Tour s.l. haust á lokaúrtökumótinu.
Á fyrsta keppnisdegi lék Guðmundur Ágúst á +4 eða 76 höggum. Hann hóf leik á 10. braut og lék fyrri 9 holurnar á pari – þar sem hann fékk skolla (+1) á 11. og 13. Hann lagaði stöðu sína með fuglum (-1) á 15. og 17. Guðmundur tapði fjórum höggum á tveimur holum (6. og 7.) og hann vann eitt högg til baka með fugli (-1) á 8. braut. Á lokaholunni fékk Guðmundur Ágúst skolla.
Á öðrum keppnisdegi byrjaði Guðmundur Ágúst á 1. holu. Hann lék hringinn á +9 eða 81 höggi þar sem hann fékk einn fugl (-1), 8 skolla (+1) og einn skramba (+2). Guðmundur Ágúst komst ekki í gegnum niðurskurðinn og er úr leik.
Á þessu tímabili hefur Guðmundur Ágúst leikið á níu mótum á DP World Tour. Hann komst í gegnum niðurskurðinn á þremur mótum í röð sem er besti árangur sem íslenskur karlkylfingur hefur náð á mótaröð í efsta styrkleikaflokki í Evrópu.
Hann hefur nú fengið alls 37.7 stig og er í sæti nr. 169 á stigalistanum. Alls eru 244 keppendur á stigalistanum.
Á þessu tímabili hefur Guðmundur Ágúst fengið tæplega 23 þúsund Evrur í verðlaunafé eða sem nemur 3,6 milljónum kr.
Besti árangur hjá íslenskum kylfingi á DP World Tour er 11. sætið. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, varð í 11. sæti á Telecom Italia Open sem fram fór í maí árið 2007.
Gudmundur Kristjansson makes a hole-in-one at the 199 yard 11th hole 👏#SingaporeClassic pic.twitter.com/3WjMKFBqlx
— DP World Tour (@DPWorldTour) February 12, 2023
Guðmundur Ágúst er sjöundi keppandinn sem slær draumahöggið á DP World Tour á þessu tímabili.