Site icon Golfsamband Íslands

Guðmundur Ágúst keppir á lokamóti Áskorendamótaraðarinnar á Mallorca

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GR, er á meðal keppenda á lokamóti Áskorendamótaraðarinnar, Challenge Tour. Mótið fer fram á eyjunni Mallorca 19.-22. nóvember.

Á lokamótinu eru aðeins 45 keppendur en að þessu sinni fá aðeins fimm stigahæstu leikmenn tímabilsins keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Á undanförnum árum hafa 20 efstu á stigalistanum fengið keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en vegna Covid-19 verða aðeins 5 sæti í boði að þessu sinni. Þetta kemur fram í viðtali við Guðmund Ágúst á kylfingur.is.

Venjulega fá keppendur sem komast inn á lokamótið á Challenge Tour takmarkaðan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili. Að þessu sinni, vegna Covid-19 aðstæðna, verða aðeins 5 efstu á peningalistanum í lok tímabilsins sem fá keppnisrétt á stærstu atvinnumótaröð Evrópu.

Þetta er aðeins í annað sinn sem íslenskur karlkylfingur kemst inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar.

Guðmundur Ágúst er í sæti nr. 46 á stigalistanum en hann kemst inn í mótið þar sem að nokkrir keppendur sem eru í sætunum fyrir ofan völdu að taka ekki þátt. Eins og staðan er í dag þá kemst keppandi nr. 52 á stigalistanum inn á lokamótið á Mallorca.

Haraldur Franklín Magnús náði ekki að komast inn á lokamótið en hann er í sæti nr. 85 á stigalistanum eftir að hafa farið upp um 20 sæti í þessari viku

Lokamótið fer fram á T-Golf & Country Club, Mallorca, 19.-22. nóvember.

Keppendalistinn er hér:

Guðmundur Ágúst hefur farið hratt upp stigalistann á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili. Hann var í sæti nr. 135 þegar keppnistímabilið hófst. Besti árangur hans er 5. sætið á móti sem fram fór í Norður-Írlandi í byrjun september á þessu ári.

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, er eini íslenski atvinnukylfingurinn í karlaflokki sem hefur komist inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur var í 35. sæti fyrir lokamótið en endaði í 37. sæti á lokastigalistanum. Það er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á Áskorendamótaröðinni.

Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur komist inn á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu með fullan keppnisrétt.

Aðeins fimm íslenskir karlkylfingar hafa verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999 þegar Birgir Leifur braut ísinn.

Birgir Leifur á 16 keppnistímabil að baki á Áskorendamótaröðinni og alls 155 mót. Besti árangur hans er 1. sæti árið 2017 á móti í Frakklandi og er það eini sigur hans á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.

Árið 2002 lék Björgvin Sigurbergsson, GK, á 11 mótum á Áskorendamótaröðinni og endaði í 179. sæti á stigalistanum.

Axel Bóasson, GK, lék á 16 mótum árið 2018 og endaði í sæti nr. 224 á stigalistanum.

Guðmundur Ágúst, GR, er á sínu öðru tímabili á Áskorendamótaröðinni. Hann lék á 6 mótum í fyrra og endaði í sæti nr. 109 á stigalistanum. Haraldur Franklín, GR, er á sínu fyrsta tímabili á Áskorendamótaröðinni.

Exit mobile version