Golfsamband Íslands

Guðmundur Ágúst leikur á áhugaverðum velli á DP World Tour í Taílandi

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, keppir á Thailand Classic mótinu á DP World Tour – sem fram fer dagana 16.-19. febrúar 2023. Keppt er á Amata Spring golfsvæðinu í Chon Buri, Bangkok, Taílandi.

Guðmundur Ágúst er í ráshóp með MJ Viljonen frá Suður-Afríku og Angel Hidalgo frá Spáni fyrstu tvo keppnisdagana. Þeir fara af stað kl. 6:19 að íslenskum tíma á fyrsta hringnum aðfaranótt fimmtudagsins 16. febrúar og eru þeir í næst síðasta ráshóp á fyrsta hringnum – sem fer út kl. 13:19 að staðartíma í Taílandi.

Á öðrum keppnisdegir fer Guðmundur Ágúst af stað kl. 1:39 að íslenskum tíma aðfaranótt föstudagsins 17. febrúar eða kl. 08:39 að morgni dags á staðartíma í Taílandi.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á mótinu í Taílandi.

Sýnt er frá mótinu á sjónvarpsstöðinni Viaplay.

Eins og áður segir er keppnisvöllurinn áhugaverður í Taílandi. Á einni holunni fara keppendur með bát út á flötina eftir upphafshöggið – eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Guðmundur Ágúst náði sínum besta árangri á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki í síðustu viku þegar hann endaði í 49. sæti í Singapúr Lokahringurinn var eftirminnilegur hjá Guðmundi Ágústi þar sem hann sló draumahöggið á 11. holu af um 180 metra færi – og fór holu í höggi.

Hann lék hringina fjóra á 6 höggum undir pari vallar eða 282 höggum. Hann fékk alls 19 fugla á hringjunum fjórum og einn örn þegar hann fór holu í höggi á lokahringnum. Hann endaði í 49. sæti og fór upp um 17 sæti á lokahringnum.

Guðmundur Ágúst fékk rúmlega 7800 Evrur í verðlaunafé eða rúmlega 1,2 milljónir kr. Guðmundur fékk einnig sín fyrstu stig á stigalista DP World Tour er hann í sæti nr. 205 af alls 239 keppendum sem hafa náð stigum á tímabilinu.

Eins og áður segir er næsta mót á DP World Tour fer fram í Bangkok í Taílandi dagana 16.-19. febrúar 2023. Dagana 23.-26. febrúar verður keppt á DP World Tour í Nýju Delí á Indlandi á Hero Indian Open – og er Guðmundur Ágúst þriðji maður á biðlista fyrir það mót. Það eru töluverðar líkur á því að hann komist þar inn.

Hér má sjá skorkortið hjá Guðmundi Ágústi frá því í síðustu viku í Singapúr.

Guðmundur Ágúst tryggði sér keppnisrétt á DP World Tour s.l. haust á lokaúrtökumótinu sem fram fór á Spáni. Hann lék á þremur mótum í Suður-Afríku og einu á Máritíus í lok síðasta árs. Hann lék í í Singapúr í síðustu viku og mótið í Taílandi er það sjöunda hjá GKG-ingnum á keppnistímabilinu.

Guðmundur Ágúst er sjöundi keppandinn sem slær draumahöggið á DP World Tour á þessu tímabili.

Exit mobile version