Golfsamband Íslands

Guðmundur Ágúst náði sínum besta árangri og sló draumahöggið á DP World Tour í Singapúr

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, náði sínum besta árangri á DP World Tour atvinnumótaröðinni á Singapúr Classic mótinu sem lauk snemma í morgun, sunnudaginn 12. febrúar 2023.

Lokahringurinn var eftirminnilegur hjá Guðmundi Ágústi þar sem hann sló draumahöggið á 11. holu af um 180 metra færi – og fór holu í höggi.

Hann lék hringina fjóra á 6 höggum undir pari vallar eða 282 höggum. Hann fékk alls 19 fugla á hringjunum fjórum og einn örn þegar hann fór holu í höggi á lokahringnum. Hann endaði í 49. sæti og fór upp um 17 sæti á lokahringnum.

Eins og áður segir var lokahringurinn eftirminnilegur – en Guðmundur Ágúst hóf leik á 10. teig þar sem hann fékk fugla og á 2. holu dagsins, þeirri 11. sló hann draumahöggið. Hann tapaði höggi á 13. með skolla eða +1, en hann lék síðari 9 holurnar á 4 höggum undir pari með því að fá tvo fugla í röð í tvígang, fyrst á 1. og 2. holu og aftur á 4. og 5. holu.

Guðmundur Ágúst fékk rúmlega 7800 Evrur í verðlaunafé eða rúmlega 1,2 milljónir kr. Guðmundur fékk einnig sín fyrstu stig á stigalista DP World Tour er hann í sæti nr. 205 af alls 239 keppendum sem hafa náð stigum á tímabilinu.

Ockie Strydom frá Suður-Afríku sigraði á 19 höggum undir pari samtals en hann lék lokahringinn á 63 höggum eða -9 og fór upp um 10 sæti á lokahringnum. Strydom fékk rúmlega 300.000 Evrur í verðlaunafé eða tæplega 50 milljónir kr.

Næsta mót á DP World Tour fer fram í Bangkok í Taílandi dagana 16.-19. febrúar 2023. Guðmundur Ágúst er komin inn á keppendalistann og tekur þátt á því móti. Dagana 23.-26. febrúar verður keppt á DP World Tour í Nýju Delí á Indlandi á Hero Indian Open – og er Guðmundur Ágúst þriðji maður á biðlista fyrir það mót. Það eru töluverðar líkur á því að hann komist þar inn.

Guðmundur Ágúst er sjöundi keppandinn sem slær draumahöggið á DP World Tour á þessu tímabili.

Hér má sjá myndir og myndbönd af Guðmundi Ágústi í Singapúr sem Greg T. sendi á golf.is.

https://www.golf.is/wp-content/uploads/2023/02/328513507_5906987619366717_6997385277068790370_n.mp4
https://www.golf.is/wp-content/uploads/2023/02/329120419_8987545097952645_5205189396595008271_n.mp4

Mótið fór fram á Laguna National golfsvæðinu í Singapúr. Mótið hófst fimmtudaginn 9. febrúar og stóð það yfir í fjóra daga en lokahringurinn fór fram aðfaranótt sunnudagsins 12. febrúar.

Guðmundur Ágúst keppti í síðustu viku á Ras Al Khaimah mótinu sem fram fór á Al Hamra vellinum í Ras al-Kaíma í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þar var hann tveimur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn eftir að hafa leikið fyrstu tvo hringina á pari vallar samtals.

Guðmundur Ágúst tryggði sér keppnisrétt á DP World Tour s.l. haust á lokaúrtökumótinu sem fram fór á Spáni. Hann lék á þremur mótum í Suður-Afríku og einu á Máritíus í lok síðasta árs. Mótið í Singapúr er því það sjötta hjá GKG-ingnum á keppnistímabilinu.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á Singapúr Classic mótinu.

Sýnt er frá mótinu á sjónvarpsstöðinni Viaplay. Útsending hófst kl. 05:30 að íslenskum tíma að morgni fimmtudagsins 9. febrúar 2023.

Singapúr var áður hluti af Malasíu en landið öðlaðist sjálfstæði árið 1965.

DP World mótaröðin er mætt að nýju í Singapúr eftir níu ára hlé. Mót á DP World Tour fóru fram í landinu með reglulegu millibili á árunum 2002-2007. Árið 2014 sigraði Felipe Aguilar frá Chile í Singapúr á DP World Tour en ekki hefur verið keppt frá árinu 2014.

DP World Tour hefur gert þriggja ára samning við Singpúr um að halda mót á mótaröðinni í landinu fram til ársins 2025 en fyrst var keppt á Evrópumótaröðinni í Singapúr árið 1993.

Exit mobile version