Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi, er úr leik á fyrra mótinu af alls tveimur sem fram fara á LET Evrópumótaröð kvenna í Sádí-Arabíu.
Keiliskonan lék fyrstu tvo hringina á 80 og 77 höggum á Royal Greens vellinum í Sádí-Arabíu.

Næsta mót á LET Evrópumótaröðinni hefst 17. nóvember og fer það fram á sama stað og á sama velli. Það mót verður með óhefðbundnu keppnisfyrirkomulagi.
LET Evrópumótaröðin er sterkasta atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki. Guðrún Brá tryggði sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni fyrir ári síðan en hún er fjórða konan frá Íslandi sem keppir á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Ólöf María Jónsdóttir var sú fyrsta, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir koma þar næst og Valdís Þóra Jónsdóttir var sú þriðja. Valdís Þóra er með keppnisrétt á þessum mótum en hún getur ekki tekið þátt vegna meiðsla.

Á þessu tímabili hefur Guðrún Brá leikið á sex mótum á LET Evrópumótaröðinni og þremur mótum á LET Access mótaröðinni sem er sú næst sterkasta hjá atvinnukonum í golfi í Evrópu. Besti árangur Guðrúnar á LET Evrópumótaröðinni er 57. sæti á móti sem fram fór í Tékklandi. Hún er í sæti nr. 135 á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar.