Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili Hafnarfirði, endaði í 38. sæti á LET Evrópumótaröðinni í Sádí-Arabíu en þetta er annað mótið í röð sem fram fer á þessum keppnisstað.
Fyrra mótið fór fram í síðustu viku á Royal Greens Golf & Country Club – og var Guðrún Brá einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.
Guðrún Brá lék á 3 höggum undir pari á 54 holum eða 213 höggum (70-74-69). Á þriðja hringnum fékk Guðrún Brá alls 7 fugla (-1) og þrjá skolla (+1).
Samhliða einstaklingskeppninni fór fram liðakeppni. Þar voru fjórir leikmenn saman í liði og töldu tvö bestu skorin á hverri holu í liðakeppninni.
Guðrún Brá var í Team Weaver og endaði lið hennar í 9. sæti. Fyrir árangurinn fengu Guðrún Brá og liðsfélagar hennar rúmlega 1100 þúsund kr. hver í sinn hlut í verðlaunafé en liðsmenn sigurliðsins fengu rétt rúmlega 6,6 milljónir kr. hver í sinn hlut
Nánar um einstaklingsmótið hér, staða og úrslit:
Nánar um liðakeppnina hér, staða og úrslit:
Mótið sem fór fram í þessari viku er 15. mótið hjá Guðrúnu Brá á þessu tímabili á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki.
Hún var í 82. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar fyrir þetta mót. Besti árangur hennar á tímabilinu er 12. sæti. Hún fór upp um 6 sæti á stigalistanum með árangri sínum á þessu móti sem lauk í dag.
Til samanburðar þá endaði Guðrún Brá í 127. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar í fyrra.