Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili Hafnarfirði, hóf leik í dag á LET Evrópumótaröðinni í Sádí-Arabíu en þetta er annað mótið í röð sem fram fer á þessum keppnisstað.
Fyrra mótið fór fram í síðustu viku á Royal Greens Golf & Country Club – og var Guðrún Brá einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.
Guðrún Brá lék fyrsta hringinn á -2 í dag og er hún á meðal 30 efstu þegar þetta er skrifað. Guðrún Brá lék á 70 höggum. Olivia Cowan frá Englandi og Georgia Hall frá Englandi eru efstar á -7 eftir fyrsta hringinn.
Samhliða einstaklingskeppninni fer fram liðakeppni. Þar eru fjórir leikmenn saman í liði og telja tvö bestu skorin á hverri holu í liðakeppninni. Guðrún Brá er í Team Weaver en liðið er í toppbaráttunni eftir fyrsta keppnisdaginn á -17 samtals.
Nánar um einstaklingsmótið hér, staða og úrslit:
Nánar um liðakeppnina hér, staða og úrslit:


Mótið sem fer fram í þessari viku er 15. mótið hjá Guðrúnu Brá á þessu tímabili á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki.
Hún er í 82. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar fyrir þetta mót. Besti árangur hennar á tímabilinu er 12. sæti.
Til samanburðar þá endaði Guðrún Brá í 127. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar í fyrra.
