Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, er á meðal keppenda á ISPS HANDA World Invitational mótinu sem fram fer á Norður-Írlandi dagana 29. júlí – 1. ágúst.
Mótið er nú haldið í þriðja sinn en það sem er áhugavert við þetta mót er að það er samvinnuverkefni þriggja atvinnumótaraða – í karla og kvennaflokki.
Mótið hluti af LET Evrópumótaröðinni, LPGA mótaröðinni í Bandaríkjunum og Evrópumótaröðinni í karlaflokki. Alls eru 288 keppendur, 144 konur og 144 karlar, og er keppt á tveimur keppnisvöllum á Galgorm Castle og Massereene golfsvæðinu.
Verðlaunaféð er samtals 3 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur 385 milljónum kr. Verðlaunafénu er skipt jafnt í karla – og kvennaflokki.
Keppnisfyrirkomulagið er 72 holu höggleikur, 18 holur á dag. Fyrstu tvo dagana leika keppendur á tveimur mismunandi keppnisvöllum en á lokahringjunum tveimur verður leikið á Galgorm vellinum.
Niðurskurður verður eftir 2. keppnisdag en þá komast 60 efstu úr karla – og kvennaflokki áfram eða 120 kylfingar samtals.
Það verður einnig niðurskurður eftir 3. keppnisdag en þá komast 35 keppendur úr karla og kvennaflokki áfram eða 70 keppendur alls.