Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Mynd/Tristan Jones
Auglýsing

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi, tekur þátt í tveimur mótum á LET Evrópumótaröðinni á næstunni. Bæði mótin fara fram á Royal Greens vellinum í Sádí-Arabíu. 

Guðrún Brá fer af stað til Sádí-Arabíu á sunnudaginn 8. nóvember. Fyrra mótið í Sádí Arabíu hefst fimmtudaginn 12. nóvember og  og það síðara hefst 17. nóvember en það mót verður með óhefðbundnu keppnisfyrirkomulagi. Nánar um það síðar. 

LET Evrópumótaröðin er sterkasta atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki. Guðrún Brá tryggði sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni fyrir ári síðan en hún er fjórða konan frá Íslandi sem keppir á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Ólöf María Jónsdóttir var sú fyrsta, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir koma þar næst og Valdís Þóra Jónsdóttir var sú þriðja. Valdís Þóra er með keppnisrétt á þessum mótum en hún getur ekki tekið þátt vegna meiðsla.  

Hef undirbúið mig eins vel og hægt er

„Ég er ánægð með að fá tækifæri að keppa á ný. Þetta keppnistímabil hefur að sjálfsögðu verið sérstakt vegna Covid-19. Ég hef reynt að undirbúa mig eins vel og hægt er við þessar aðstæður fyrir þessi mót. Unnið í líkamlega þættinum heima, púttað heima, skoðað keppnisvöllinn eins vel og hægt er, undirbúið mig andlega og sitthvað fleira. Það eru allir að glíma við óvenjulegar aðstæður. Innst inni veit ég að ég hef undirbúið mig eins vel og hægt er fyrir þessa törn sem er framundan,“ segir Guðrún Brá en faðir hennar Björgvin Sigurbergsson, verður með henni í för sem aðstoðarmaður og þjálfari. 

Guðrún Brá og Björgvin Sigurbergsson MyndTristan Jones

„Það er mikið regluverk í gangi í Sádí-Arabíu vegna Covid-19. Við verðum skimuð margoft og á golfsvæðinu eru strangar samskiptareglur. Við verðum nánast í sóttkví allan tímann, ég fæ ekki að vera neinum samskiptum við aðra á svæðinu, nema þá pabba. Ég hef aldrei komið ti Sádí Arabíu áður en við fáum ekki tækifæri til að skoða okkur um að þessu sinni. Við förum bara beint út á golfsvæðið frá flugvellinum, verðum þar alveg fram til loka á síðara mótinu, og þaðan beint út á flugvöll og heim,“ segir Guðrún Brá. 

Á þessu tímabili hefur Guðrún Brá leikið á fimm mótum á LET Evrópumótaröðinni og þremur mótum á LET Access mótaröðinni sem er sú næst sterkasta hjá atvinnukonum í golfi í Evrópu. Besti árangur Guðrúnar á LET Evrópumótaröðinni er 57. sæti á móti sem fram fór í Tékklandi. Hún er í sæti nr. 135 á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar. 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ