Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, tekur risastökk á nýuppfærðum heimslista sem birtur var í dag. Guðrún Brá fer upp um 209 sæti og er í sæti nr. 669 í þessari viku.
Smelltu hér fyrir heimslista atvinnukylfinga í kvennaflokki.
Þetta er besti árangur Guðrúnar Brár á heimslistanum frá því að hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018.
Í lok ársins 2018 var Guðrún Brá í sæti nr. 976, í lok ársins 2019 var hún í sæti nr. 868 og hún var í sæti nr. 875 í lok ársins 2020.
Guðrún Brá er eini íslenski kvenkylfingurinn sem er að leika á LET Evrópumótaröðinni þessa stundina. Valdís Þóra Jónsdóttir hætti nýverið sem atvinnumaður vegna meiðsla. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eignaðist barn nýverið en ætlar sér að taka upp þráðinn í atvinnugolfinu á næstu mánuðum og misserum.
Árangur þeirra Valdísar og Ólafíu telur enn inn á heimslistann og er Valdís Þóra í sæti nr. 701 og Ólafía Þórunn er í sæti nr. 1122.
Valdís Þóra Jónsdóttir fór hæst á heimslistanum árið 2018 þegar hún komst í sæti nr. 313.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fór hæst á heimslistanum árið 2017 þegar hún komst í sæti nr. 170.