Golfsamband Íslands

Guðrún Brá sigraði í kvennaflokki í Hvaleyrarbikarnum

Íslandsmeistarinn úr Keili, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, sigraði í Hvaleyrarbikarnum í golfi með sannfærandi hætti á Hvaleyrarvelli í dag. Guðrún Brá lék holurnar 36 á samtals þremur höggum undir pari. Hún lék fyrri hringinn á 69 höggum í morgun og hinn síðari nú seinni partinn á 70 höggum. 

Lokastaðan:

Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar kom næst en hún var fimm höggum á eftir Guðrúnu. Lék hún hringina á 77 og 67 og bætti sig því um tíu högg á milli hringja. Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR var þriðja á fjórum yfir pari og þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Ásdís Valtýsdóttir, báðar úr GR, lék á samtals sjö yfir pari. 

Er þetta í annað sinn sem Guðrún Brá sigrar í Hvaleyrarbikarnum en mótið er stigamót á mótaröð GSÍ og hefur verið haldið síðan 2016. 

„Ég spilaði bara nokkuð öruggt golf og var eiginlega ekki í neinum vandræðum. Í raun var þetta mjög einfalt golf. Þetta var fínt. Ég átti reyndar þrjú löng pútt sem ég setti ofan í ef ég horfi á báða hringina. Skorið hefði getað verið miklu betra miðað við öll þau færi sem ég fékk til að fá fugla en maður getur kannski sagt það eftir flesta hringi,” sagði Guðrún sem sigraði  einnigí Meistaramóti Keilis á Hvaleyrinni á dögunum.  

„Ég var náttúrlega búinn að spila fjóra hringi í Meistaramótinu sem eru eins og frábærir æfingahringir fyrir þetta mót. Ég var því í góðum gír og þekkti völlinn vel,” sagði Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili. 

Exit mobile version