Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili, tryggði sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni með góðum árangri á lokaúrtökumóti LET.
Úrtökumótið fór fram á La Manga golfsvæðinu á Spáni og lék Guðrún Brá hringina fimm á +3 samtals.
Það skilaði henni í 17. sæti en 20 efstu fá keppnisrétt í flokkii 9b á næsta keppnistímabili sterkustu atvinnumótaraðar Evrópu.

Alls hafa fjórar íslenskar konur komist inn á LET Evrópumótaröðina. Ólöf María Jónsdóttir var sú fyrsta, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var önnur í röðinni og Valdís Þóra Jónsdóttir sú þriðja.
Guðrún Brá, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi kvenna, verður sú fjórða sem keppir frá Íslandi á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Guðrún Brá og Valdís Þóra verða því báðar á LET Evrópumótaröðinni á tímabilinu 2020 sem hefst í lok febrúar þar sem keppt verður í Ástralíu.