Golfsamband Íslands

Gunnlaugur Árni Sveinsson valinn í lið Evrópu í Bonallack Trophy

Gunnlaugur Árni Sveinsson, landsliðskylfingur úr GKG, hefur verið valinn í lið Evrópu í Bonnallack Trophy. 12 bestu áhugakylfingar Evrópu mæta 12 bestu áhugakylfingum Asíu/Eyjaálfu en mótið fer fram í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 8.-10. janúar.

“Það er mikill heiður að vera valinn að spila fyrir hönd Íslands og Evrópu í þessu móti og mjög gaman að sjá þessa miklu vinnu skila sér” sagði Gunnlaugur Árni. 

Gunnlaugur Árni er fyrsti íslenski kylfingurinn sem fær boð í Bonallack Trophy. Hann leikur fyrir LSU háskólann í Bandaríkjunum og átti árangur hans í háskólagolfinu í haust stóran þátt í að vera valinn í liðið þar sem hann hefur náð besta árangri allra nýliða í NCAA deildinni. Gunnlaugur Árni sigraði á sterku háskólamóti og lenti í öðru sæti í öðru móti. Hann hefur að undanförnu rokið upp heimslista áhugakylfinga og er nú í 134. sæti á listanum. 

“Það er búið að vera mjög gaman og góð breyting að koma hérna út, það hefur hjálpað mikið hvað fólkið hérna úti hefur komið mér fljótt inn í hlutina. Hér er frábær umgjörð og mikið lagt í að láta öllum líða vel. Ég er ótrúlega þakklátur fjölskyldu minni, þjálfurum og öllu því frábæra fólki í kringum mig. Þau hafa veitt mér rosalega mikinn stuðning sem hefur skilað því að ég mætti mjög vel undirbúinn fyrir háskólagolfið” sagði Gunnlaugur Árni.

Meðal kylfinga sem hafa tekið þátt eru Justin Rose, Francesco Molinari, Rory McIlroy, Jon Rahm og Shane Lowry fyrir Evrópu og Hideki Matsuyama og Cameron Smith fyrir Asíu/Eyjaálfu. 

Mótið fer fram annað hvert ár, en árið 2010 var mótinu í Indlandi þó aflýst vegna eldgossins í Eyjafjallajökli þar sem gosaska dreifðist um alla Evrópu og olli miklum truflunum á flugumferð.

Nánari upplýsingar um mótið má sjá hér:

https://www.ega-golf.ch/content/european-teams-finalised-ahead-bonallack-patsy-hankins-trophies

Exit mobile version