– Gylfi Þór Sigurðsson ætlar sér stóra hluti í golfinu þegar fótboltaferlinum lýkur
„Ég gæti alveg tekið upp á því að reyna að komast í landslið eldri kylfinga þegar ég hætti í fótboltanum. Ég fer á kaf í golfið þegar ferlinum lýkur og þetta er stórskemmtileg íþrótt sem ég kann að meta,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu í viðtali við Golf á Íslandi sem birt var í 2. tbl. 2017.
Ég hitti Gylfa Þór á hóteli landsliðsins í Reykjavík tveimur dögum fyrir stórleikinn gegn Króatíu á Laugardalsvelli í júní. Hann brosti breitt þegar í ljós kom að viðtalið yrði aðeins um golf og það er greinilegt að atvinnumaðurinn er mikill áhugamaður um golfíþróttina.
Gylfi Þór kynntist golfinu í gegnum föður sinn, Sigurð Aðalsteinsson, og Ólaf Má bróður sinn sem var í fremstu röð kylfinga á Íslandi í mörg ár.
„Ég æfði í raun aldrei golf eins og Óli Þór, en ég fór á einhver námskeið hjá Keili þegar ég var yngri. Pabbi og Óli hafa í raun kennt mér allt sem ég kann en ég ætla mér að ná betri tökum á þessu og verða betri en þeir báðir,“ segir Gylfi Þór en hann er ansi lipur kylfingur og spilar á forgjöf í kringum 3-4.
Ég fer á kaf í golfið þegar ferlinum lýkur og þetta er stórskemmtileg íþrótt sem ég kann að meta,“ segir Gylfi Þór
Ég fer á kaf í golfið þegar ferlinum lýkur og þetta er stórskemmtileg íþrótt sem ég kann að meta,“ segir Gylfi Þór
„Það er alltaf mikil keppni í gangi þegar við feðgarnir spilum golf saman. Pabbi er í landsliði eldri kylfinga og er glerharður keppnismaður. Óli bróðir gefur ekkert eftir í keppninni gegn okkur en hann er án efa bestur af okkur þremur. Pabbi æfir líklega mest af okkur og spilar meira en við báðir til samans. Við spilum mest höggleik og reynum að fara 36 holur á dag þegar við erum saman. Það er ekki margir dagar á ári sem við fáum í slíkt enda er mikið að gera yfir vetrartímann hjá mér í fótboltanum. Við mætum eldsnemma á golfvellina í ferðum okkar, hitum upp í klukkutíma fyrir hringinn og síðan er allt lagt í keppnina.“
Það er alltaf mikil keppni í gangi þegar við feðgarnir spilum golf saman.
Golf í sól og blíðu er heillandi
Gylfi Þór velur sér golfdaga þar sem sólin skín og veðrið er gott. Það rignir oft í Swansea þar sem hann hefur búið frá árinu 2014 og við þær aðstæður er Gylfi ekki mikið úti á golfvellinum. „Ég get alveg spilað í rigningu og roki en mér finnst bara miklu skemmtilegra að leika í sól og blíðu. Um leið og sólin fer að skína þá fer ég í golfgírinn. Golfið reynir gríðarlega mikið á hugann og einbeitinguna. Ég get alveg verið pirraður á golfvellinum ef hlutirnir eru ekki að ganga upp. Ég vil slá rétt og koma boltanum þangað sem hann á að fara, ef það er ekki í lagi þá get ég alveg átt það til að pirra mig á því.“
Stutta spilið er styrkleiki Gylfa Þórs
Það er ljóst að Gylfi Þór hefur engan áhuga á því að vera í meðalmennskunni þegar kemur að íþróttum. „Ég á enn mörg ár eftir í fótboltanum en þegar ég hætti í atvinnumennskunni þá fer ég að æfa golfið af miklum krafti. Ég finn á hverju sumri að ég næ betri og betri tökum á golfinu og mig langar að gera meira í framtíðinni. Styrkleiki minn eru högg sem eru 120 metrar og nær. Ég vippa vel inn á flatirnar og púttin eru oftast góð. Veikleikinn hjá mér eru upphafshöggin með drævernum, en ég er alltaf að reyna að laga það,“ segir Gylfi Þór en hann slær um 230-240 metra á flugi í upphafshöggunum.
Lék með Adam Scott og Gareth Bale á Bahamaeyjum
Gylfi Þór fylgist mikið með golfi í sjónvarpi og þá sérstaklega þegar risamótin fara fram.
„Konan er ekki alltaf ánægð með mig þegar ég skipti yfir á golfið síðdegis á sunnudegi. Þetta er fínt sjónvarpsefni á góðum tíma dagsins. Minn maður í golfinu er Ástralinn Adam Scott. Ég fékk að spila með honum á Bahamaeyjum á sínum tíma þegar ég var í Tottenham. Þar spilað ég með Gareth Bale og Scott á svæði sem eigandi Tottenham á. Ég var aðeins stressaður að spila með svona góðum leikmanni en hann var rosalega rólegur og yfirvegaður. Þetta var frábær dagur með Scott. Sveiflan hans er ótrúlega falleg, alltaf sama tempóið og engin átök. Hann hafði sigrað á Masters-mótinu skömmu áður en við hittum hann og í klúbbhúsinu eftir hringinn var verið að sýna pútt á lokaholunni á Masters þegar hann var að tryggja sigurinn. Það var skrýtið að sitja með honum og horfa á þetta móment á þessum stað. Ég var með stjörnur í augunum og fannst þetta magnað.“
Minn maður í golfinu er Ástralinn Adam Scott.
Púttkeppni á hótelgöngum í landsliðsferðum
Það eru töluvert margir í landsliði Íslands sem leika golf reglulega. Má þar nefna Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson, Kolbein Sigþórsson og Ögmund Kristinsson. Sá síðastnefndi er bróðir landsliðskonunnar efnilegu Ragnhildar Kristinsdóttur úr GR.
„Við reynum að spila saman í landsliðsferðunum ef það gefst tími í það. Á EM í Frakklandi í fyrra var einn frídagur sem nokkrir nýttu í golf en ég gerði það ekki, ákvað að hvíla mig. Við erum alltaf með pútterinn með okkur í ferðunum erlendis og við útbúum golfbrautir á hótelgöngunum. Þá er púttað yfir alls konar gólfefni, flísar, parket og teppi. Það eru heilmikil læti þegar slíkt er í gangi og margir sem hafa sigrað á slíkum mótum.“
Við erum alltaf með pútterinn með okkur í ferðunum erlendis og við útbúum golfbrautir á hótelgöngunum.
Margir vellir í uppáhaldi
Hvaleyrarvöllur og Urriðavöllur eru í uppáhaldi hjá Gylfa Þór hér á landi og einnig Vestmanneyjavöllur.
„Ég hef alltaf haft gaman af fyrri níu holunum í Hvaleyrinni í hrauninu. Sjöunda brautin sem er par 5 hola er skemmtileg, kannski ekki sú erfiðasta, en það er hægt að ná góðu skori á henni. Mér finnst Urriðavöllur skemmtilegur og þar eru nokkrar holur mjög áhugaverðar, sérstaklega sú 17. sem býður upp á marga möguleika. Mér finnst líka mjög gaman og sérstakt að leika í Vestmannaeyjum. Það er einstakt og útsýnið af vellinum þar er frábært.“
Gylfi Þór hefur leikið á mörgum golfvöllum erlendis og TPC Sawgrass völlurinn í Bandaríkjunum er einn af þeim. „Ég hef leikið þrisvar sinnum á þessum velli þar sem Players meistaramótið fer fram árlega. Að standa á 16. flötinni og horfa yfir á eyjuna á þeirri 17. er magnað. Áhorfendastúkurnar voru enn uppi þegar ég lék þar síðast og mér fannst það gaman. Flatirnar voru reyndar rosalega harðar og hraðar, og boltinn skoppaði út af 17. flötinni þegar ég sló með fleygjárninu. Þær voru aðeins of hraðar fyrir minn smekk en líklega eru þær svona þegar Players-mótið fer fram. Ég hef einnig spilað á Belfry, Royal Porthcawl í Wales þar sem Opna breska fyrir eldri kylfinga hefur farið fram, Stoke Park, The Grove og Celtic Manor. Allt frábærir vellir en ég á eftir að heimsækja enn fleiri velli í framtíðinni.“
Nákvæmni betri en lengd
Landsliðsmaðurinn í fótbolta er ekki mikill græjukall þegar kemur að golfkylfum og öðru slíku.
„Ég var eitthvað að spá í að fá mér nýjan dræver og lengja mig aðeins. Ég fór í mælingu en endaði á því að halda mig við gamla Titleist dræverinn minn. Ég slæ um 230-240 metra á góðum degi en ég vil frekar vera nákvæmur og hitta brautina í stað þess að slá aðeins lengra og í kargann. Ég held mig við það sem virkar fyrir mig.“
Ég slæ um 230-240 metra á góðum degi en ég vil frekar vera nákvæmur og hitta brautina
Í liði Swansea eru nokkrir góðir kylfingar og segir Gylfi Þór að það séu ávallt 4-5 leikmenn í hverju liði sem hafi mikinn áhuga á golfi. „Þetta var svipað hjá Tottenham þegar ég var þar. Hjá Swansea erum við 4-5 sem spilum reglulega. Sænski markvörðurinn Kristoffer Nordfeldt er með svipaða forgjöf og ég.“
Gylfi Þór var kjörinn íþróttamaður ársins 2016 í annað sinn á ferlinum. Hann fylgist vel með árangri íslenskra kylfinga og er sannfærður um að fleiri atvinnukylfingar frá Íslandi eigi eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. „Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur rutt brautina að undanförnu og gefið tóninn fyrir aðra. Það er mikilvægt fyrir yngri kylfinga að sjá að það er hægt að ná alla leið þótt þú komir frá Íslandi. Það er nóg af efnilegum kylfingum á Íslandi sem eiga eftir að fara sömu leið og Ólafía Þórunn,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.
Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar, seth@golf.is