Auglýsing

Haraldur Franklín Magnús er í sjöunda sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar en þremur mótum er lokið á keppnistímabilinu. Í lok keppnistímabilsins fá 20 efstu keppnisrétt á DP World Tour, Evrópumótaröðinni. Alls eru 30 mót á dagskrá á Áskorendamótaröðinni og fara þau fram í 18 mismunandi löndum.

Haraldur Franklín endaði í þriðja sæti á móti í Suður-Afríku sem lauk í gær en þar lék hann á 19 höggum undir pari vallar.

Stigalistinn er hér í heild sinni:

Haraldur Franklín er á sínu þriðja ári á Áskorendamótaröðinni, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.

Haraldur er með 15,620 stig á stigalistanum en JC Richie frá Suður-Afríku er langefstur en hann hefur sigrað á tveimur mótum af þremur á undanförnum vikum.

Í fyrra endaði Haraldur Franklín í 48. sæti á stigalistanum og var hársbreidd frá því að komast inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar þar sem að 45 efstu keppendurnir kepptu. Hann lék á alls 19 mótum í fyrra og fékk alls 35,816 stig.

Aðeins tveir kylfingar frá Íslandi hafa komist inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar – Birgir Leifur Hafþórsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson.

Guðmundur Ágúst endaði í 46. sæti árið 2020.

Birgir Leifur endaði í 35. sæti árið 2017.

Áskorendamótaröðin var sett á laggirnar árið 1989. Frá þeim tíma hafa margir þekktir kylfingar nýtt sér mótaröðina sem stökkpall inn á Evrópumótaröðina – DP Tour. Þar má nefna Thomas Bjørn (1995), Justin Rose (1999), Ian Poulter (1999), Henrik Stenson (2000), Louis Oosthuizen (2003), Tommy Fleetwood (2011) og Brooks Koepka (2013).

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ