GR-ingarnir Andri Þór Björnsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús verða allir á meðal keppenda á atvinnumóti sem fram fer dagana 3.-6. september.
Mótið fer fram á Galgorm Spa & Golf Resort á Norður-Írlandi skammt frá höfuðborginni Belfast.
Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, sem er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu.
2. keppnisdagur:
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í toppbaráttunni þegar mótið er hálfnað. Guðmundur e r á -5 samtals en hann hefur leikið síðari 9 holurnar á vellinum á 9 höggum undir pari. Alls hefur Guðmundur Ágúst fengið 11 fugla.

Andri Þór Björnsson, GR, komst í gegnum niðurskurðinn en hann er á +2 í 45. sæti. Andri Þór lék á -1 á öðrum keppnisdeginum þar sem hann fékk m.a. þrjá fugla og einn örn.

Haraldur Franklín Magnús, GR, komst einnig í gegnum niðurskurðinn en hann er höggi á eftir Andra Þór. Haraldur Franklín lék á pari vallar í dag þar sem hann fékk tvo fugla.

1. keppnisdagur:
Guðmundur Ágúst er í 8. sæti eftir 1. hringinn á -2 samtals. Hann lék fyrri 9 holurnar í gær á +3 en fékk fimm fugla á síðari 9 holunum og bætti stöðu sína talsvert.
Andri Þór og Haraldur Franklín eru báðir á +3 samtals og eru þeir í 75. sæti.



Guðmundur Ágúst hefur keppt á fimm mótum á þessu tímabili. Besti árangur hans er 57. sæti en hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á þremur mótum.

Andri Þór hefur leikið á einu móti á tímabilinu en það mót fór fram um miðjan júlí. Þar endaði Andri Þór í 68. sæti.
Haraldur Franklín hefur leikið á fjórum mótum á tímabilinu og hefur hann komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur þeirra.
