Haraldur Franklín Magnús.
Auglýsing

Fimm íslenskir kylfingar voru á meðal keppenda á Timberwise Finnish Open sem fram fór dagana 28.-31. ágúst. Mótið er hluti af Nordic Tour atvinnumótaröðinni.

Kylfingarnir fimm voru þeir Andri Þór Björnsson (GR), Axel Bóasson (GK), Bjarki Pétursson (GKB), Haraldur Franklín Magnús (GR) og Rúnar Arnórsson (GK).

Haraldur Franklín Magnús endaði í öðru sæti á frábæru skori, -9 samtals. Hann lék hringina þrjá á 70-70-67 höggum. Á lokahringnum lék hann á -5. Hann var höggi á eftir Anton Wilbertsson frá Svíþjóð sem tryggði sér sigurinn með fugli á lokaholunni.

Bjarki Pétursson lék einnig vel á þessu móti. Þetta var fyrsta mótið hjá Bjarka á þessari atvinnumótaröð en hann endaði í 9. sæti á -5 samtals. Í haust ætlar Bjarki að reyna við úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina og er hann til alls líklegur miðað við árangurinn í Finnlandi.

Rúnar, Axel og Andri Þór komust ekki í gegnum niðurskurðinn.

Andri, Axel og Haraldur Franklín hafa leikið á þessari mótaröð á þessu ári en þetta er fyrsta mótið hjá þeim Bjarka og Rúnari. Þeir tveir síðastnefndu ætla að taka þátt á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðin í haust.

Það eru aðeins sjö mót eftir á Nordic Tour mótaröðinni. Hörð keppni er um fimm efstu sætin á stigalistanum sem tryggja keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni. Til þess að komast inn á Áskorendamótaröðina eru tvær leiðir á Nordic Tour.

Í fyrsta lagi er hægt að tryggja sæti með því að sigra á þremur eða fleiri mótum á sama tímabilinu. Það hafa tveir kylfingar gert nú þegar þegar. Og í öðru lagi að vera í einu af fimm efstu sætunum á stigalistanum í lok keppnistímabilsins.

Stigalistinn er í heild sinni hér:

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, er í 4. sæti á stigalistanum en hann hefur nú þegar tryggt sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni með því að sigra á þremur mótum á tímabilinu.

Christopher Sählström frá Svíþjóð, sem er í efsta sæti stigalistans, hefur sigrað á fjórum mótum og er því líkt og Guðmundur Ágúst með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni nú þegar.

Haraldur Franklín Magnús er í góðri stöðu að gera atlögu að keppnisrétti á Áskorendamótaröðinni. Hann er í 6. sæti á stigalistanum en hann hefur leikið á 17 mótum á tímabilinu.

Axel Bóasson er í 14. sæti en hann hefur leikið á 15 mótum á tímabilinu.

Andri Þór Björnsson er í 139. sæti á stigalistanum en hann hefur leikið á 14 mótum.



Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ