Haraldur Franklín Magnús náði sínum besta árangri á tímabilinu á Challenge Tour mótaröðinni í dag þegar hann endaði í 9. sæti á UAE Challenge mótinu sem fór fram á Saadiyat Beach vellinum í Abu Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Mótið er hluti af Challenge Tour mótaröðinni, sem er næst sterkasta atvinnumótaröð í karlaflokki í Evrópu. Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Axel Bóasson voru einnig á meðal keppenda og var þetta annað mótið í röð hjá íslensku kylfingunum í Abu Dabí á Challenge Tour mótaröðinni.
Haraldur Franklín hefur tekið þátt á fimm mótum á tímabilinu en hans besti árangur á árinu var 13. sæti á móti sem fram fór í Suður-Afríku í febrúar. Hann fór upp um 33 sæti á stigalista mótaraðarinnar eftir daginn í dag og er hann í sæti nr. 58. Í lok keppnistímabilsins komast 45 efstu á stigalistanum inn á lokamót tímabilsins – þar sem að keppt er um 20 laus sæti á DP World Tour mótaröðinni en sú mótaröð er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu hjá körlum.
Guðmundur Ágúst og Axel voru að leika á sínu öðru móti á tímabilinu á þessari mótaröð.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit:
Haraldur Magnús lék hringina fjóra á 9 höggum undir pari vallar (69-72-67-71) og var hann fimm höggum frá efsta sætinu. Þetta er eins og áður segir besti árangur hans á tímabilinu.
Guðmundur Ágúst endaði í 54. sæti en hann lék samtals á +2 (76-66-72-74).
Axel Bóasson komst ekki í gegnum niðurskurðinn en hann lék á +7 samtals (75-76).
Alls eru 29 mót á Challenge Tour á þessu tímabili og er mótið í Sameinuð arabíska furstadæminu það áttunda á þessu tímabili.
Næsta mót fer fram dagana 9.-12. maí á Real Club Sevilla við borgina Sevilla á Spáni. Haraldur Franklín er á keppendalistanum á því móti en Guðmundur Ágúst og Axel Bóasson eru báðir á biðlista fyrir að mót. Axel er í þriðja sæti á þeim biðlista og Guðmundur Ágúst er í sjötta sæti á biðlistanum.
Sameinuðu arabísku furstadæmin eru sambandsríki sjö furstadæma á suðausturhorni Arabíuskagans. Furstadæmin eru Abú Dabí, Adsman, Dúbæ, Fúdsaíra, Ras al-Kaíma, Sjarja og Úmm al-Kúvaín. Þau eiga landamæri að Sádí-Arabíu og Óman og strönd að Persaflóa.