Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, var dag kjörinn forseti Evrópska golfsambandsins, EGA.
Haukur Örn tók formlega við embættinu af Pierre Bechmann frá Frakklandi á ársþingi EGA sem fram fór í Chantilly í Frakklandi í dag.
Haukur Örn verður forseti EGA til ársins 2021 en á undanförnum tveimur árum hefur Haukur Örn gegnt embætti verðandi forseta eða „president-elect“
Haukur Örn þekkir vel til Evrópska golfsambandsins en hann sat í mótanefnd EGA á árunum 2010-2014 og hefur setið í framkvæmdastjórn þess frá árinu 2015. Haukur Örn varð þá fyrsti Íslendingurinn til þess að vera kjörinn í framkvæmdastjórn EGA.
Þetta er vissulega mikill heiður fyrir mig en ekki síður viðurkenning fyrir íslenskt golf og velgengni þess síðastliðin 15 ár. Það er margt spennandi að gerast í evrópsku golfi og ég efast ekki um að þessi aðkoma mín að EGA muni gefa okkur hér á landi enn meiri byr í seglin,“ segir Haukur Örn.
Evrópska golfsambandið var stofnað árið 1937 og er samband 47 golfþjóða innan Evrópu, sem hefur meðal annars það hlutverk að sjá um framkvæmd Evrópumóta og annarra alþjóðlegra keppna, ásamt því að stuðla að framþróun íþróttarinnar í álfunni og halda utan um forgjafarkerfið í Evrópu.