/

Deildu:

Auglýsing

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, var um helgina kjörinn næsti forseti Evrópska golfsambandsins, EGA, á aðalfundi samtakanna í Lausanne í Sviss. Haukur Örn mun taka við embættinu árið 2019 af Pierre Bechmann.

„Fyrirkomulagið hjá EGA er þannig að forsetinn er kosinn með tveggja ára fyrirvara þannig að nú mun ég gegna embætti „verðandi forseta“ eða „president-elect“ næstu tvö árin. Svo tek ég við forsetaembættinu árið 2019 og gegni því til ársins 2021.“

Haukur Örn þekkir vel til Evrópska golfsambandsins en hann sat í mótanefnd EGA á árunum 2010-2014 og hefur setið í framkvæmdastjórn þess frá árinu 2015. Haukur Örn varð þá fyrsti Íslendingurinn til þess að vera kjörinn í framkvæmdastjórn EGA.

„Þetta fyrirkomulag gefur mér kost á að kynnast betur störfum forseta sambandsins áður en ég tek sjálfur við embættinu eftir tvö ár. Þetta er vissulega mikill heiður fyrir mig en ekki síður viðurkenning fyrir íslenskt golf og velgengni þess síðastliðin 15 ár. Það er margt spennandi að gerast í evrópsku golfi og ég efast ekki um að þessi aðkoma mín að EGA muni gefa okkur hér á landi enn meiri byr í seglin,“ segir Haukur Örn.

Evrópska golfsambandið var stofnað árið 1937 og er samband 48 golfþjóða innan Evrópu, sem hefur meðal annars það hlutverk að sjá um framkvæmd Evrópumóta og annarra alþjóðlegra keppna, ásamt því að stuðla að framþróun íþróttarinnar í álfunni.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ