/

Deildu:

Helgi Dan Steinsson. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

– Skagamaðurinn rifjar upp 16 ára gamla golfsögu

Vallarmetið af hvítum teigum á Vestmannaeyjavelli á Skagamaðurinn Helgi Dan Steinsson. Metið hefur staðist tímans tönn ef svo má að orði komast. Vallarmetið setti Helgi Dan í maí árið 2002 á stigamótaröð GSÍ sem í dag er Eimskipsmótaröðin.

Golf á Íslandi fékk Helga til að rifja vallarmetið upp og hann fór létt með það þrátt fyrir að 16 ár séu liðin frá þeim golfhring.

Viðtalið er hluti af umfjöllun um Íslandsmótið í golfi sem fram fer í Vestmannaeyjum dagana 26.-29. júlí.  Rafræn útgáfa af Golf á Íslandi er hér.


„Þetta var í maí 2002 og ég ætlaði ekkert í þetta golfmót. Vinur minn Ingi Rúnar Gíslason, sem var á þessum tíma golfkennari hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, hringdi í mig vikunni fyrir mótið. Í því símtali sannfærði hann mig um að koma með sér og hópi af strákum úr Hafnafirði til Vestmannaeyja,“ segir Helgi en aðstæður voru ágætar í Eyjum.

„Völlurinn var í þokkalegu standi, það hafði rignt töluvert dagana fyrir mótið þannig að flatirnar voru mjúkar og tóku vel við innáhöggum. Veðrið var gott alla helgina, hægur vindur og sól. Mótið byrjaði vel hjá mér og ég fann strax að þetta gæti verið gott mót. Ég sló vel og spurningin var hvort ég myndi pútta eins og maður. Vallarmetið, 63 högg, kom á síðasta hringnum á mótinu og ég setti það með eftirfarandi hætti:

1. hola: 388 metrar, par 4.
„Dræver af teig og fleygjárn í annað högg. Það var aðeins of stutt á flötina, tvípútt og ég setti niður tveggja metra pútt fyrir pari.

2. hola: 124 metrar, par 3.
„Ég sló gott högg með 9-járni af teig og boltinn endaði um tvo metra frá holu. Tvípútt og par.

3. hola: 311 metrar, par 4.
„Gott upphafshögg með dræver. Boltinn var í flatarkanti ég vippaði alveg við holuna í öðru högginu og fékk fugl sem var frekar léttur.“

4. hola: 515 metrar, par 5.
„Dræver af teig, 3-tré í annað högg sem endaði um 60 metra frá flöt. Vippaði með sandjárninu um þrjá metra frá holu, tvípútt og par.“

5. hola: 319 metrar, par 4.
„Upphafshöggið sló ég með dræver, boltinn lenti um 70 metra frá holu. Ég tók sandjárnið í annað högg og var um sex metra frá. Fuglapúttið fór ekki ofan í, tvípútt og par.“

Frá 5. braut í Vestmannaeyjum. Mynd/seth@golf.is

6. hola: 357 metrar, par 4.
„Ég man þessa holu eins og þetta hefði gerst í gær. Dræver af teig, frábært högg á miðja braut í um 90 metra fjarlægð frá holunni – sem var skorin fremst vinstra megin á flötinni. Við sáum ekki flaggið en boltinn minn fór næstum því ofan í holuna og ég ýtti boltanum ofan í fyrir fugli. Þeir sem sáu boltana lenda á flötinni sögðu að minn bolti hefði næstum því farið ofan í fyrir erni.“

7. hola: 175 metrar, par 3.
„Ég sló með 7-járni og var um 2-3 metra hægra megin við holuna. Tvípútt og par.“

Séð yfir 1. brautina og flötina í Vestmannaeyjum. Mynd/seth@golf.is

8. hola: 247 metrar, par 4.
„Ég sló með 3-tré í upphafshögginu, það var gott og boltinn endaði í grasglompu fyrir framan flötina. Legan var ekki góð og ég var ánægður með hvernig ég kom boltanum einn metra frá holu. Púttið fór ofan í, fugl og ég var kominn þrjú högg undir par.“

Frá 8. braut. Mynd/Daníel

9 hola: 354 metrar, par 4.
„Ég missti upphafshöggið aðeins til hægri með drævernum. Átti um 100 metra eftir, sló aðeins of langt í innáhögginu. Púttaði af 3 metra færi fyrir ofan holuna og boltinn fór ofan í, fugl og ég var fjögur högg undir pari á þessum stað eða á 31 höggi.

Frá Vestmannaeyjavelli. Mynd/seth@golf.is

10. hola: 300 metrar, par 4.
„Dræver af teig, í flatarkantinn, vipp og tvípútt fyrir pari, -4 í heildina.

11. hola: 386 metrar, par 4.
„Dræver af teig og 8-járn í annað högg, tvípútt og par, -4 í heildina.

12. hola: 150 metrar, par 3.
„Ég dró upphafshöggið aðeins til vinstri með 7-járninu. Endaði 12-15 metra frá holunni á flötinni vinstra megin.Setti púttið í og fimmti fuglinn staðreynd, -5 í heildina.“

13. hola: 355 metrar, par 4.
„Upphafshöggið á 13. braut í Eyjum er án efa eitt erfiðasta teighöggið á golfvelli á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Vallarmörk vinstra megin og mikið gras hægra megin á þessum tíma árið 2002. Brautin öll upp í móti og það blés líka aðeins á móti á þessum hring. Teighöggið heppnaðist og var fullkomið, lenti rétt upp á brekkunni og skoppaði vel áfram. Ég hafði heppnina með mér, boltinn stöðvaðist rétt fyrir framan klöpp sem er þarna á miðri braut í ca 100 metra fjarlægð frá holunni. Sló þaðan um 3 metra frá, tvípútt og par, -5 í heildina.“

14. hola: 118 metrar, par 3.
„Fleygjárn af teig, tvípútt og par, -5 í heildina.“

15. hola, 260 metrar, par 4.
„Mér finnst 15. holan í Eyjum vera frábær golfhola. Ég var búinn að plana að slá með 3-tré út á 13. Brautina og það gekk eftir. Annað höggið fór alveg út um þúfur. Ég átti vonlaust pútt úr flatarkantinum upp brekkuna frægu á þessari flöt sem er búið að breyta í dag. Púttið var alltof fast en til allrar hamingju small boltinn í stönginni og fór ofan í, fugl og -6 í heildina.“

16. hola: 473 metrar, par 5.
„Teighöggið var ekki gott og það endaði í hólnum á milli 16. og 18. Legan var slæm og ég vissi ég að ég þyrfti að leggja upp fyrir þriðja höggið. Innáhöggið var aðeins of stutt, ég vippaði því fjórða högginu um tvo metra frá holu og púttið rétt slefaði ofan í holuna, par og -6 í heildina.“

17. hola: 133 metrar, par 3.
„Þeir sem hafa leikið völlinn í Vestmannaeyjum vita það að það er varla nokkur leið að velja rétta kylfu fyrir teighöggið á 17. holu. Maður hreinlega verður að hitta flötina, of stutt högg býr til vandræði og langt er vatn og vesen. Ég valdi 9-járn í þetta verkefni, hitti höggið vel og boltinn stefndi beint á flaggið. Á miðri leið var eins og boltinn vildi ekki fara lengra og hann kom niður fyrir framan flötina. Sem betur fer stoppaði hann í þykku grasi í brekkunni fyrir framan flötina. Vippið var ágætt, um 2 metra frá holu, púttið fór ofan í og ég fékk par, -6 í heildina.“

18. hola: 435 metrar, par 5.
„Ég var í ráshópi með Sigurpáli Geir Sveinssyni og Sturlu Ómarssyni. Við þurftum að bíða aðeins á teignum. Þar sagði Siggi Palli við mig: „Einn fugl í viðbót og við erum góðir.“ Ég fattaði ekki alveg hvað hann var að tala um. Ég hafði enga hugmynd um hvert vallarmetið var í Eyjum. Teighöggið var gott með dræver, 3-tré í annað högg sem fór yfir flötina. Ég átti erfitt vipp eftir niður flötina sem heppnaðist vel og ég átti þriggja metra pútt eftir fyrir nýju vallarmet. Það fór í miðja holu, fugl og -7 í heildina. 31-32 og 63 högg,“ segir Helgi Dan en þess ber að geta að hann sigraði á mótinu á -9 samtals (67-71-63).

Frá 18. braut í Vestmannaeyju. Mynd/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ