Nýlega áskotnaðist vefsvæði Golfmynda rúmlega hálfrar aldar gömul kvikmynd frá Afrekskeppni Flugfélags Íslands. Mótið var haldið á Nesvellinum haustið 1970.
Höfundur myndarinnar, sem er um 23 mínútna löng, er Jón Hermannsson, sem var á þeim tíma yfirmaður tæknideildar hjá Sjónvarpinu. Sá sem lýsti mótinu í Sjónvarpi var Pétur Björnsson, upphafsmaður Nesklúbbsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Golfmyndir.is.
Til þessarar keppni, sem haldin var árlega að hausti, var boðið bestu kylfingum landsins í karlaflokki. Keppendur í mótinu 1970 voru þeir Þorbjörn Kjærbo, nýkrýndur Íslandsmeistari, Björgvin Þorsteinsson (1953-2021) þáverandi Akureyrarmeistari, Lofti Ólafssyni (1954), meistara í Nesklúbbnum, Ársæll Sveinsson (1955) meistari frá Vestmanneyjum og Gunnar Sólnes (1940-2016), fyrrum Íslandsmeistari sem kom inn sem varamaður í forföllum Jóhanns R. Benediktssonar (1930) frá Suðurnesjum. Ólafur Bjarki Ragnarsson (1934-2013), sem varð Reykjavíkurmeistari 1970 virðist ekki hafa átt heimangengt.
Kvikmynd Jóns er merkileg fyrir ýmsar sakir. Fyrst og fremst er fátítt að sjá jafn góðar myndir af golfsveiflum þeirra sem fremstir voru í íþróttinni á þessum tíma. Aðstæður eru hins vegar ekki glæsilegar, sé tekið mið af því hverju kylfingar hafa vanist í dag. Slegið var af tréteigum og púttað á ósléttum flötum og búnaður kylfinga, kylfur og boltar hafa tekið miklum framförum í áranna rás. Kvikmyndin er jafnframt sérstök að því leyti að Jón setti inn á myndina eins konar skýringamyndir, sem sýndu stefnu og vegalengd á höggum keppenda. ,,Mótið var tekið upp með einni ,,cameru” og það var erfitt fyrir sjónvarpsáhorfendur að gera sér grein fyrir því hvert slegið var. Mig langaði að prufa að gera svona ,,animation”, eins og ég hafði séð í bandarískum golfmyndum, til þess að sjá hvert kylfingarnir voru að slá. Til þess þurfti að merkja lengd allra högga og mæla lengd og breidd flata. Ég held að ég hafi verið í þrjár vikur að útbúa þetta á stofugólfinu heima,” segir Jón og lætur hugann reika rúm fimmtíu ár aftur í tímann.
Jón fæddist rétt fyrir stríð, árið 1939 og hann var því rúmlega þrítugur þegar mótið var haldið. Hann kvikmyndaði golfmót fyrir Ríkissjónvarpið um nokkurra ára skeið og var sæmdur ýmsum viðurkenningum fyrir framlag sitt til að koma íþróttinni á framfæri, meðal annars Gullmerki Nesklúbbsins.
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Jón fékkst við að mynda golfmót. Þegar vinnuævi hans lauk fyrir einum og hálfum áratug, tók hann upp kylfurnar eftir margra áratuga hlé og nú leikur hann golf á völlunum við Korpúlfsstaði. ,,Ég byrjaði að spila með Einari, Begga og Óttari,” segir Jón og á þá við bræðurna Einar og Berg Guðnasyni og Óttar Yngvason. Einar og Óttar voru í hópi bestu kylfinga klúbbsins, og sá síðarnefndi var Íslandsmeistari 1962. Bergur varð Íslandsmeistari í öðrum greinum, handknattleik og knattspyrnu með Val. ,,En ég náði aldrei miklum árangri, enda er ég svona,” bætir hann við og sýnir viðmælanda hægri hönd sína, sem aðeins er með þrjár fingur. Hinir tveir fingurnir lentu í hjólsög, þegar hann var sex ára gamall og varð ekki bjargað.