Íslenska kvennalandsliðið í golfi er í 30. sæti þegar búið er að leika þrjá hringi af fjórum á heimsmeistaramóti áhugamanna sem fram fer í Japan. Íslenska liðið lék á pari vallar á þriðja hringnum.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR lék á einu höggi undir pari 71 (-1), Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK lék á 73 höggum (+1) og Sunnu Víðisdóttur úr GR lék á 78 (+6) en tvö bestu skorin telja. Ólafía Þórunn og Guðrún Brá eru jafnar í 59. sæti í einstaklingskeppninni en Sunna er í 120. sæti.
„Þetta var ágætur dagur hjá stelpunum. Markmiðið var að leika undir pari í dag og klifra aðeins upp töfluna. Þær voru nálægt því og léku á parinu í dag og eru í 30. sæti. Það er jákvætt að þær hafa bætt sig um 2-3 högg á hverjum degi og við stefnum á að gera það sama á morgun. Þær eru mjög nálægt því að skora lágt. Aðstæður hafa verið mjög góðar til að spila golf, þó mjög heitt í dag og rakt,“ sagði Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari.