Golfsamband Íslands

Hugsaði golfið alltaf sem íþrótt fyrir gamalmenni

Grein út 1. tbl. Golf á Íslandi 2020.

Hreiðar Gíslason, 55 ára gamall íþróttakennari úr Hafnarfirði, er svo til nýbyrjaður í golfíþróttinni en fyrir tveimur árum hóf hann að munda kylfurnar og það má með sanni segja að hann sé kominn með golfbakteríuna frægu.

„Það eru tvö ár síðan ég byrjaði í golfinu. Konan dró mig út á golfvöllinn og ég er henni mjög þakklátur. Ég var ekkert á þeim buxunum að fara út í golfið en eftir að við kynntumst þá vildi hún ólm fá mig til að byrja. Mér finnst þetta virkilega skemmtilegt sport. Í fyrstu var ég með lánssett en í fyrra keypti ég mér notað sett fyrir byrjendur. Golfið hentar einstaklega vel fyrir pör að spila saman og svo er félagsskapurinn mjög góður,“ segir Hreiðar.


Hreiðar hefur verið íþróttakennari í 32 ár. Í dag er hann íþróttakennari við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði en áður var hann íþróttakennari á Egilsstöðum, Hveragerði, í Setbergsskóla í Hafnarfirði, Iðnskólanum í Hafnarfirði og í Växsjö í Svíþjóð þar sem var hann var í þrjú ár.

Hreiðar spilaði fótbolta með Haukum á yngri árum og fór svo á fullt í frjálsar íþróttir með FH sem hann keppti fyrir í spretthlaupum í mörg ár og fór svo út í þjálfun frjálsíþróttafólks, bæði sem félagsþjálfari hjá FH og einkaþjálfari. Á síðustu árum hefur hann mikið verið í hjólreiðum og nú hefur golfið bæst við.

„Ég hugsaði golfið alltaf sem íþrótt fyrir gamalmenni þar sem lítið væri að gerast og allt svo hægt. Fyrst þegar ég prófaði golfið fyrir tveimur árum fannst mér ekki nógu mikið „action“ en ég er smátt og smátt að ná tökum á þessu,“ segir Hreiðar.

Spurður hvernig honum hafi gengið að byrja í golfinu segir Hreiðar: „Það var erfitt en blessað keppnisskapið hefur ekkert farið. Ég er vanur spretthlaupunum og þannig ætlaði ég að taka golfið. En það gengur bara ekki þannig fyrir sig. Maður þarf að vera svo mjúkur en ég stend mig enn að því að vera rólegur í aftursveiflunni en set svo allt á fleygiferð í framsveiflunni. Ég tengi það við spretthlaupin. Rassinn upp í startblokkinni og skotið ríður af stað. Þegar ég skráði mig í golfklúbbinn Keili fór ég á nýliðanámskeið á vegum klúbbsins sem mér fannst alveg frábært. Þar voru kynntar helstu reglurnar og þessi grunnatriði í íþróttinni. Þetta var virkilega góður grunnur. Í framhaldinu fór ég í sex tíma hjá golfkennara og það var ansi gott. Ég tel alveg nauðsynlegt fyrir fólk sem er að byrja í golfinu að fara í kennslu,“ segir Hreiðar.

Hreiðar og sambýliskona hans, Ásta Lilja Baldursdóttir, spila mikið saman og hafa hug á að spila á mörgum golfvöllum á Íslandi í sumar og svo er auðvitað á stefnuskránni að fara til útlanda í skipulagða golfferð.

„Við ætlum að reyna að fara hringinn í kringum Ísland í sumar. Við tökum með okkur golfsettin og stefnan er að reyna að spila á sem flestum völlum. Það eru margir frábærir vellir á landinu sem gaman verður að prófa. Það er ekki inni í myndinni að fara til útlanda í golf alveg í bráð en það er á stefnuskránni í framtíðinni. Ég fékk aðeins smjörþefinn þegar ég fór með konunni ásamt golfvinkonum hennar til Tenerife. Ég labbaði með þeim einn hring og fékk aðeins að kynnast þessu án þess að spila sjálfur en ég var svo bara á hjólinu að flakka um eyjuna á meðan þær spiluðu golf.“

Geggjað að prófa hina og þessa velli 

„Ég sé alveg fyrir mér að stunda golfíþróttina nánast alveg fram á grafarbakkann. Hreyfingin, samveran og útiveran spila stóra rullu og flestir í vinahópi mínum og konunnar eru í golfinu. Ég veit vel að golfið getur verið mjög tímafrekt en þegar parið fer saman þá breytir það öllu. Ég hugsa golfið ekkert sem keppnisíþrótt heldur er ég í þessu bara til að hafa gaman af. Vissulega kemur smá keppni í mann en þá verður bara að skrúfa sig niður. Það er það sama með hjólreiðarnar. Stundum á maður það til að gleyma sér og reyna að halda í við þá bestu en svo rennur upp fyrir manni að gera það ekki. Ég hef alltaf verið mikið fyrir útiveru og hef gengið oft upp á fjöll og golfið er svo sannarlega góð viðbót við það. Vellirnir eru misjafnir og ólíkir og það er alveg geggjað að prófa hina og þessa velli. Ég er mjög spenntur fyrir sumrinu,“ segir Hreiðar.

Ásta Lilja sambýliskona Hreiðars byrjaði í golfi fyrir fimm árum. Hún hefur frá því hún byrjaði spilað með vinkonum í hóp sem kalla sig „Gollurnar“ en fljótlega eftir að hún og Hreiðar kynntust dró hún karlinn út á völlinn.

„Ég þurfti ekkert að tuða lengi í honum að koma með mér og prófa golfið. Hann varð strax æstur í að koma og prófa og við gerum mikið af því að spila saman og fara með vinum okkar út á völl. Vegna ástandsins ætlum við og eins flestir Íslendingar að ferðast innanlands í sumar.

Golfið verður í stóru hlutverki hjá okkur því við ætlum að reyna að spila á sem flestum golfvöllum í ferð okkar í kringum landið. Draumurinn er svo að draga karlinn með til útlanda og það er á stefnuskránni að fara í golfferð og spila við bestu aðstæður. Vonandi tekst það á næsta ári,“ segir Ásta Lilja.

Guðmundur Hilmarsson skrifar

 



Exit mobile version