Hulda Clara Gestsdóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson.
Auglýsing

Golfsamband Íslands hefur valið Huldu Clöru Gestsdóttur og Gunnlaug Árna Sveinsson sem kylfinga ársins 2024. Þau leika bæði fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar. 

Þetta er í 27. skipti sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í fyrsta sinn sem Hulda Clara og Gunnlaugur Árni hljóta þessa viðurkenningu. 

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins en frá árinu 1998 hefur karl og kona verið valin sem kylfingar ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið valinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu í kvennaflokki eða alls sex sinnum. 

Hulda Clara varð Íslandsmeistari í höggleik í annað sinn á Hólmsvelli í júlí. Hún náði góðum árangri fyrir Denver háskólann í bandaríska háskólagolfinu þar sem hún sigraði í deildarkeppni skólans og hafnaði í 12. sæti í svæðiskeppni NCAA. Hún gegndi lykilhlutverki með íslenska landsliðinu og lenti í 36. sæti á Evrópumóti einstaklinga í Finnlandi í júlí.  Hulda Clara hóf árið í 604. sæti á heimslista áhugakylfinga en er í dag í 188. sæti. Hún stefnir á atvinnumennsku á næsta ári þegar hún lýkur námi. 
Gunnlaugur Árni hóf nám við LSU háskólann í Bandaríkjunum í ágúst. Hann sigraði á sterku háskólamóti í október en sýnt var frá mótinu í beinni sjónvarpsútsendingu á Golf Channel alla keppnisdaganna. Hann hafnaði í 2. sæti í öðru háskólamóti og var á meðal 25 efstu kylfinganna í öllum fimm mótum annarinnar. Hann var valinn á Fred Haskins listann yfir bestu háskólakylfingana í Bandaríkjunum og var hann eini nýliðinn á listanum. Gunnlaugur Árni lék fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í liðakeppni sem tryggði sér þátttökurétt í efstu deild á næsta ári. Jafnframt endaði hann í 9. sæti á opna breska áhugamannamótinu sem er eitt allra sterkasta áhugamannamót í heimi. Undir lok árs var Gunnlaugur Árni valinn að keppa fyrir hönd Evrópu í Bonallack Trophy þar sem 12 bestu áhugakylfingar Evrópu keppa á móti 12 bestu áhugakylfingum Asíu og Eyjaálfu. Gunnlaugur Árni hóf árið í 962. sæti á heimslista áhugakylfinga en er í dag í 118. sæti.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ