Golfsamband Íslands hefur valið Huldu Clöru Gestsdóttur og Gunnlaug Árna Sveinsson sem kylfinga ársins 2024. Þau leika bæði fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar.
Þetta er í 27. skipti sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í fyrsta sinn sem Hulda Clara og Gunnlaugur Árni hljóta þessa viðurkenningu.
Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins en frá árinu 1998 hefur karl og kona verið valin sem kylfingar ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið valinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu í kvennaflokki eða alls sex sinnum.
Hulda Clara varð Íslandsmeistari í höggleik í annað sinn á Hólmsvelli í júlí. Hún náði góðum árangri fyrir Denver háskólann í bandaríska háskólagolfinu þar sem hún sigraði í deildarkeppni skólans og hafnaði í 12. sæti í svæðiskeppni NCAA. Hún gegndi lykilhlutverki með íslenska landsliðinu og lenti í 36. sæti á Evrópumóti einstaklinga í Finnlandi í júlí. Hulda Clara hóf árið í 604. sæti á heimslista áhugakylfinga en er í dag í 188. sæti. Hún stefnir á atvinnumennsku á næsta ári þegar hún lýkur námi.
Gunnlaugur Árni hóf nám við LSU háskólann í Bandaríkjunum í ágúst. Hann sigraði á sterku háskólamóti í október en sýnt var frá mótinu í beinni sjónvarpsútsendingu á Golf Channel alla keppnisdaganna. Hann hafnaði í 2. sæti í öðru háskólamóti og var á meðal 25 efstu kylfinganna í öllum fimm mótum annarinnar. Hann var valinn á Fred Haskins listann yfir bestu háskólakylfingana í Bandaríkjunum og var hann eini nýliðinn á listanum. Gunnlaugur Árni lék fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í liðakeppni sem tryggði sér þátttökurétt í efstu deild á næsta ári. Jafnframt endaði hann í 9. sæti á opna breska áhugamannamótinu sem er eitt allra sterkasta áhugamannamót í heimi. Undir lok árs var Gunnlaugur Árni valinn að keppa fyrir hönd Evrópu í Bonallack Trophy þar sem 12 bestu áhugakylfingar Evrópu keppa á móti 12 bestu áhugakylfingum Asíu og Eyjaálfu. Gunnlaugur Árni hóf árið í 962. sæti á heimslista áhugakylfinga en er í dag í 118. sæti.