Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar sigruðu í Hvaleyrarbikarnum í golfi á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði í dag. Bæði lögðu þau grunninn að sigrinum með frábærri spilamennsku á fyrsta keppnisdegi á föstudaginn en leiknar voru 54 holur.
Smelltu hér fyrir lokastöðuna og skor:
Mótið er næstsíðasta stigamótið á mótaröð GSÍ og Hulda Clara er nú efst á stigalista kvenna og fór upp fyrir Íslandsmeistararann Ragnhildi Kristinsdóttur úr Golfklúbbi Reykjavíkur sem gat ekki verið með vegna verkefna erlendis.
Hulda lauk leik á höggi yfir pari samtals og sigraði með þriggja högga mun. Lék Hulda á 214 höggum en Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR var á 217 höggum. Anna Sólveig Snorradóttir úr Keili fékk bronsverðlaunin á 227 höggum.
Hulda Clara lék hringina þrjá á 66, 75 og 73 höggum en aðstæður voru erfiðastar á öðrum hringnum í gær þegar rigndi hressilega. Hina tvo dagana léku kylfingar í afar góðu veðri. Hulda hafði tveggja högga forskot á Perlu fyrir lokahringinn. Eftir fimm holur á lokahringnum var forskotið aðeins eitt högg en Hulda fékk fugla á 7. og 8. holu og var býsna örugg eftir það.
Kristján Þór lék hringina þrjá á 64, 69 og 73 höggum og sigraði örugglega þegar uppi var staðið á samtals sjö undir pari en um tíma var þó mikil spenna á lokahringnum. Ingi Þór Ólafson einnig úr GM og Daníel Ísak Steinarsson úr Keili komu næstir á 211 höggum eða fimm höggum á eftir Kristjáni.
Kristján var með þriggja högga forskot á Daníel fyrir lokadaginn. Þegar lokahringurinn var hálfnaður hafði Daníel náð forystunni. Vonir Daníels um sigur voru úr sögunni eftir 16. holuna þar sem hann sló upphafshöggið út í Atlantshafið og lék holuna á níu höggum. Daníel lék lokahringinn á 75 og Ingi Þór á 74 en enginn efstu manna lék undir pari í dag.
Var þetta í fyrsta skipti sem Hulda Clara og Kristján Þór vinna Hvaleyrarbikarinn.
2 keppnisdagur:
Mikil spenna er hlaupin í baráttuna um Hvaleyrarbikarinn í golfi í kvennaflokki fyrir lokadaginn á morgun. Gamall refur jók forystuna í karlaflokki.
Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur saxaði á forskot Huldu Clöru Gestsdóttur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar á öðrum keppnisdegi í dag. Perla lék Hvaleyrarvöll í Hafnarfirði á 72 höggum í rigningunni í dag en Hulda á 75 höggum. Hulda Clara hefur því tveggja högga forskot fyrir lokadaginn á morgun. Sveiflurnar hjá henni voru miklar á milli daga en hún lék á 66 höggum í blíðviðri í gær.
Ljóst er að baráttan um sigurinn verður á milli þeirra en næstu kylfingar eru 10 höggum á eftir Huldu en það eru GR-ingarnir Helga Signý Pálsdóttir og Berglind Björnsdóttir.
Skemmtilegt gæti verið fyrir golfáhugafólk að rölta með Huldu og Perlu á morgun en þar fara Íslandsmeistararnir í golfi 2021 og 2022.
Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar jók forskot sitt í karlaflokki úr einu höggi í þrjú. Kristján lék á 69 höggum og hefur þriggja högga forskot á heimamanninn Daníel Ísak Steinarsson úr Keili og Sigurð Arnar Garðarsson úr GKG. Daníel fikraði sig vel upp listann með því að leika á 67 höggum og Sigurður Arnar var á 68 höggum.
Íslandsmeistarinn Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja fann sig ekki vel í rigningunni og lék á 74 höggum en var á 67 í gær. Sömu sögu er að segja af GR-ingnum Andra Þór Björnssyni sem var á sama skori báða dagana.
Fróðlegt verður að sjá hvort Daníel og Sigurði takist að setja pressu á Kristján á morgun sem er öllu reyndari kylfingur enda tvöfaldur Íslandsmeistari í höggleik.
1. keppnisdagur:
Glæsileg skor litu dagsins ljós á fyrsta keppnisdegi Hvaleyrarbikarsins hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði í dag.
Efstu kylfingar í bæði karla- og kvennaflokki fóru langt undir 70 höggin í veðurblíðunni á Hvaleyrarvelli en mótið er næstsíðasta stigamótið á mótaröð GSÍ. Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar lék á 64 höggum og er á sjö höggum undir pari vallarins.
Kristján er þrautreyndur landsliðsmaður og hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari í golfi. Karlarnir hófu leik á 10. teig og Kristján paraði fyrstu sex holurnar. Rann þá einhvers konar æði á Kristján sem fékk fugla á sex af næstu sjö holum og sjö fugla á níu holum. Ekki oft sem slíkar rispur sjást í mótum á Íslandi. Lék hann fyrri níu holur vallarins á 31 höggi sem voru sem sagt síðari níu hjá honum í dag.
Hann hefur þó aðeins eitt högg í forskot á Gunnlaug Árna Sveinsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Gunnlaugur fékk fugla á fimm holum í röð og þar af á fjórum fyrstu holunum í Hrauninu rétt eins og Kristján. Þar á eftir koma þrír kylfingar á 67 höggum og þeirra á meðal Íslandsmeistarinn Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja. Andri Þór Björnsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Guðjón Frans Halldórsson GKG eru á sama skori.
Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG er með gott forskot eftir að hafa leikið á 66 höggum. Fékk hún sex fugla og einn skolla á hringnum en Hulda varð Íslandsmeistari árið 2021. Hulda lék einnig vel í hrauninu eða fyrri hluta vallarins. Var hún á 33 höggum eftir fyrri níu holurnar og fékk þrjá fugla í röð á 3. – 5. holu.
Íslandsmeistarinn frá því í fyrra Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR er önnur á 71 höggi eða parinu og Berglind Björnsdóttir einnig úr GR er á 72 höggum.
Fleiri gerðu góða hluti á Hvaleyrinni í dag en efstu kylfingarnir því Nína Margrét Valtýsdóttir úr GR sló draumahöggið þegar hún fór holu í höggi á 6. holu Hvaleyrarvallar.