Hulda Clara Gestsdóttir, GKG og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, tóku þátt á Evrópumóti einstaklinga hjá áhugakylfingum sem fram fór í dagana 20.-23. júlí. Keppt var á Golf de St Germain golfsvæðinu sem er rétt við París í Frakklandi.
Ragnhildur og Hulda Clara komust ekki í gegnum niðurskurðinn að loknum þriðja keppnishringum af alls fjórum. Þeir keppendur sem léku fyrstu tvo hringina á 1 höggi yfir pari eða betur komust í gegnum niðurskurðinn.
Ragnhildur lék hringina þrjá á 13 höggum yfir pari samtals, 229 höggum (73-79-77). Ragnhildur endaði í 122. sæti.
Hulda Clara lék hringina þrjá á 14 höggum yfir pari samtals, 230 höggum (78-79-73). Hulda Clara endaði í 125. sæti.
Þetta er í 35. sinn sem þessi keppni fer fram en það er Golfsamband Evrópu, EGA, sem er framkvæmdaraðili mótsins. Mótið fór fyrst fram árið 1986 og þar mæta til leiks bestu áhugakylfingar Evrópu í kvennaflokki.
Alls voru 144 keppendur á mótinu frá 35 mismunandi þjóðum. Keppnisfyrirkomulagið er höggleikur og eru leiknir fjórir 18 holu hringir á fjórum keppnisdögum. Niðurskurður er eftir þriðja keppnisdaginn og komast 60 efstu áfram á lokahringinn þar sem að keppt er um Evrópumeistaratitil áhugakylfinga í kvennaflokki 2022.
Þetta er í þriðja sinn sem Ragnhildur keppir á þessu móti – en besti árangur hennar er 61. sæti árið 2019. Hulda Clara lék á þessu móti líkt og Ragnhildur í fyrra þar sem þær komust ekki í gegnum niðurskurðinn að loknum þriðja keppnisdegi.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, á bestan árangur á þessu móti, 4. sætið árið 2017.
Le Grand Parcours völlurinn á Golf de Saint Germain svæðinu er á meðal 10 bestu golfvalla Frakklands og oftar en ekki á topp 20 lista yfir bestu golfvelli Evrópu. Opna franska meistaramótið hefur farið níu sinnum fram á þessu svæði og Heimsmeistaramót áhugakylfinga í kvennaflokki, Espirito Santo Trophy, var á þessu svæði árið 1964.