Hulda Clara Gestsdóttir með Guðfinnubikarinn. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Á Íslandsmótinu í golfi 2024 sem fram fór á Hólmsvelli í Leiru 18.-21. júlí var keppt í fyrsta sinn um Guðfinnubikarinn sem er veittur þeim áhugakylfingi sem leikur á lægsta skori í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi ár hvert. 

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, lék á besta skori áhugakylfings í kvennaflokki og er Íslandsmeistarinn 2024 í kvennaflokki sú fyrsta sem fær Guðfinnubikarinn. 

Bikarinn er veittur til heiðurs Guðfinnu Sigurþórsdóttur en hún er fyrsta konan sem fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í golfi í kvennaflokki árið 1967.  Karen Sævarsdóttir, dóttir Guðfinnu, afhenti bikarinn á verðlaunaafhendingu Íslandsmótsins 2024 á Hólmsvelli í Leiru.

<strong>Karen Sævarsdóttir dóttir Guðfinnu afhenti bikarinn á verðlaunaafhendingu Íslandsmótsins 2024 á Hólmsvelli í Leiru<strong>

Guðfinna varð þrívegis Íslandsmeistari í golfi, 1967, 1968 og 1971. Hún var í hópi þeirra sem stóðu að stofnun Golfklúbbs Suðurnesja árið 1964.

Verðlaunagripurinn er úr safni Guðfinnu en dóttir hennar, Karen Sævarsdóttir, er sigursælasti kylfingur allra tíma á Íslandsmótinu í golfi, þar sem hún sigraði átta sinnum í röð á árunum 1989-1996. Mæðgurnar, Guðfinna og Karen, eru því með ellefu titla samtals.   

Mikill kraftur fylgdi komu Guðfinnu inn í golfíþróttina og barðist hún af hörku fyrir framgangi kvenna í golfinu. Hún tók málin föstum tökum utan vallar sem innan. Hún vakti athygli á því í viðtali eftir sigurinn árið 1971 að konum og körlum væri ekki gert jafnt hátt undir höfði í keppni þeirra bestu á Íslandsmótinu. Þar gagnrýndi hún m.a. golfsambandið fyrir keppnisfyrirkomulag þar sem að konur léku 9 holur á dag, alls 36 holur á fjórum keppnisdögum, á meðan karlarnir léku 18 holur á dag, alls 72 holur. 

Í viðtali við golf.is sem birt var árið 2017 sagði Guðfinna að hún hefði upplifað að konur sem kepptu á Íslandsmótinu í golfi væru viðhengi á körlunum þeirra sem voru einnig að keppa. 

„Við lékum 9 holur á dag og ungar stúlkur voru með okkur í ráshóp til þess að við gætum leiðbeint þeim og veitt þeim ráð. Ég var ekki sátt við þessa stöðu og ég reif án efa kjaft við marga út af þessu á þeim tíma. Árið eftir var þessu breytt og ég var mjög ánægð með það. Það virkaði að gagnrýna.“

Fáar konur voru í golfi í kringum árið 1970 og segir Guðfinna að ekkert kvennastarf hafi verið til staðar og hún hafi oft haft það á tilfinningunni að golfvellir væru ekki staðir fyrir konur. 

„Ég var áður í íþróttum áður en ég fór í golfið og fyrir mér var þetta alltaf íþrótt og keppni. Það var hins vegar ekkert meistaramót fyrir konur hér í þessum klúbbi og ég fékk alveg að heyra það að það væru alltaf sömu konurnar sem myndu hirða verðlaunin og það væri því tilgangslaust að kaupa þessi verðlaun. Þetta viðhorf var enn til staðar þegar Karen var að byrja í golfi,“ segir Guðfinna og er glöð að staðan sé önnur í dag og að konum sé að fjölga mikið í golfíþróttinni.

Mæðgurnar Guðfinna Sigurþórsdóttir og Karen Sævarsdóttir með Íslandsmeistarabikarinn í kvennaflokki en þær eiga 11 Íslandsmeistaratitla samtals Karen með 8 og Guðfinna með 3 Myndsethgolfis

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ