christmas snack food, close up on a bowl of rasins and mixed nuts
Auglýsing

Kylfingar velta því oft fyrir sér hvað þeir eigi að borða á meðan þeir leika golf og þá sérstaklega í keppni. Það er ekki sama hvað maður borðar og það skiptir líka máli á hvaða holu kylfingurinn er á hringnum.

Hér eru nokkur góð ráð úr ýmsum áttum frá næringafræðingum.

Áður en hringurinn hefst:

Próteinrík máltíð (egg, kjöt, fiskur), góðar fitur (silungur, avókadó, hnetur), einföld en náttúruleg kolvetni (ávextir, grænmeti, baunir, litlir skammtar af hrísgrjónum eða fjölkorna brauði).

Holur 1 – 6

Ef kylfingar kjósa að borða á fyrstu sex holunum ætti markmiðið að vera að halda blóðsykrinum stöðugum og ekki missa orkuna. Ávextir á borð við epli, perur og appelsínur eru góður kostur ásamt handfylli af hnetum. Trefjarnar í ávöxtunum og fitan í hnetunum gerir það að verkum að fæðan fer hægt í gegnum meltingarfærin og ástandið verður stöðugt.

Holur 7 – 12


Markmiðið á þessum holum er að halda orkustiginu jöfnu með fæðu sem heldur jafnvægi á orkubúskapnum. Rétt blanda af próteinum, kolvetnum og fitu. Heimatilbúnar og þaulhugsaðar próteinstangir er góður kostur. Samloka úr grófu korni með hnetusmjöri, túnfiski eða kjúkling er einnig góður kostur. Próteindrykkur með banana getur líka verið fín lausn.

Holur 13 – 18


Markmiðið á þessum holum er að vera með nægjanlega orku í líkamanum til þess að ljúka hringnum eins vel og hægt er. Einbeitingin þarf að vera í lagi þegar spennustigið eykst og höggin verða erfiðari. Á þessum tímapunkti er mælt með því að borða þurrkaða ávexti sem eru kolvetnarík fæða og íþróttadrykkur (með litlum sykri) er einnig góður kostur. Sumir næringasérfræðingar mæla jafnvel með einum svörtum kaffi– eða tebolla til þess að skerpa aðeins á huganum.

Það er óraunhæft að ætla að margir kylfingar geti borðað eins mikið og lýst er hér fyrir ofan. Aðalatriðið er að halda góðu jafnvægi í inntöku próteina, kolvetna og fitu. Harðfiskbiti á fyrri hluta hringsins er góð lausn, próteinstykki, ávöxtur eða hnetur ætti að duga á miðhlutanum og eitthvert smámál sem gefur orku á lokakaflanum er besti kosturinn.

Þess ber að geta að nauðsynlegt er að halda vökvabúskap líkamans í góðu horfi með því að drekka nóg af vatni á meðan leikið er.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ