Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG sigruðu í Hvaleyrarbikarnum í golfi á stigamótaröð GSÍ en mótinu lauk á Hvaleyrarvelli í Hafnafirði í dag. Guðmundur Ágúst lék hringina þrjá á glæsilegu skori eða 13 höggum undir pari samtals. Ragnhildur lék á 2 höggum undir pari samtals en hún hafði mikla yfirburði í kvennaflokknum.
Smelltu hér fyrir lokastöðu og úrslit.
Ragnhildur sigraði í kvennaflokki í þriðja sinn á síðustu fjórum árum. Hún lék holurnar 54 á 211 höggum og var samtals á tveimur höggum undir pari vallarins. Ragnhildur gat leyft sér að leika lokahringinn á 74 höggum eftir að hafa leikið hina tvo á 68 og 69 höggum. Ragnhildur hafði mikla yfirburði og vann með sextán högga mun. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir einnig úr GR varð önnur og Anna Júlía Ólafsdóttir úr GKG hafnaði í þriðja sæti.
Hvað er þetta með Ragnhildi og Hvaleyrina? „Ég var í kringum parið í fyrra og núna var ég undir pari. Það er því eitthvað við þennan völl og eitthvað hérna sem hentar mér. Þótt ég sé ekki sú stöðugasta í teighöggunum þá hentar mér einhvern veginn að spila hérna. Völlurinn er í mjög góðu standi. Boltinn rúllar eins vel á flötunum og hægt er,“ sagði Ragnhildur en hún púttaði vel fyrstu tvo dagana og lagði grunninn að sigrinum.
„Járnaslátturinn var mjög góður alla helgina. Ég sló vel af teig á fyrsta hringnum en var ekki eins örugg í gær og í dag. Þá kom ég mér aðeins oftar í vandræði. Púttin duttu á föstudag og laugardag en voru aðeins að brenna holubarmana í dag. “
Nóg af verkefnum eru framundan hjá Ragnhildi og hún er á leið á EM áhugamanna. „Ég og Hulda Clara Gestsdóttir förum til Parísar í fyrramálið til að keppa á EM einstaklinga. Íslandsmótið kemur svo í framhaldinu,“ sagði Ragnhildur Kristinsdóttir eftir að hafa veitt bikarnum viðtöku.

Einn af uppáhaldsvöllum Guðmundar
Sigur Guðmundur var einnig nokkuð öruggur en hann lék virkilega vel. Notaði hann 200 högg slétt en hringina þrjá lék hann á 67, 66 og 67 höggum. Veðrið var hagstætt alla dagana og Guðmundur nýtti sér það vel en heimamennirnir Axel Bóasson og Rúnar Arnórsson voru sjö höggum á eftir.
„Þetta var fínt. Ég var mjög góður í gær og mjög góður fyrstu fjórtán holurnar í dag. Þá komu tvö virkilega slöpp högg sem voru aðeins í taugarnar á mér. Kannski kveikti það bara nóg í mér til að ná þessari fallegu niðurstöðu á lokaholunum, “ sagði Guðmundur Ágúst og vísar þar til þess að hann fékk fugla á síðustu þremur holunum á lokahringnum.

„Ég púttaði vel og flatirnar voru geggjaðar. Þær voru ekki mjög hraðar. Maður hefur alla vega séð þær hraðari hérna en boltinn rúllaði mjög vel og aðstæður buðu upp á að setja púttin ofan í. Sérstaklega ef maður átti fjóra eða fimm metra eftir. Fyrstu tvo dagana voru þrjár eða fjórar flatir sem ég hitti ekki í tilskyldum höggafjölda. Eftir það var ég meira eða minna í fuglafæri. Veðrið var æðislegt á heildina litið og það eru forréttindi að spila alla hringina með vind undir fjórum metrum á sekúndu. Þegar golan er þá gerir hún samt ansi mikið því hún er svo köld. Ég get tekið dæmi frá sextándu holunni. Í gær sló ég með dræver og næsta högg með 54 gráðu fleygjárni en í dag sló ég 2 járn, 2 járn og þriðja höggið með 54 gráðu fleygjárni á sömu holu. Þetta getur því verið mjög fljótt að breytast vegna þess hversu köld hafgolan er. “
Völlurinn er í uppáhaldi hjá Guðmundi. „Já þetta er einn af mínum uppáhaldstöðunum á Íslandi til að spila golf enda kem ég hingað annað slagið til að leika mér með félögunum. Völlurinn er alltaf svo vel hirtur og í góðu standi. “
Mörg mót eru framundan hjá Guðmundi í atvinnumenskunni erlendis sem eftir lifir sumars. „Ég verð hér heima í næstu viku en eftir það tek ég fimm mót í röð. Kem þá heim í þrjá daga og fer aftur út. Ég mun því spila átta vikur í röð með stuttu stoppi heima á milli. Ég hafði ætlað mér að vera í Austurríki í þessari viku en ég hef verið lélegur og ofan á það er erfitt að ferðast um þessar mundir. Fólk hefur kannski séð og heyrt af ástandinu á flugvöllum þessa dagana. Um daginn var ég til dæmis á Ítalíu og fékk ekki golfsettið. Fór viku seinna á Gatwick til að sækja það. Þetta er því búið að vera frekar erfitt að undanförnu bæði á vellinum og utan hans. “
Fann Guðmundur þá taktinn á ný í Hvaleyrarbikarnum?
„Já já. Ég tók góða æfingu með Arnari Má þjálfara mínum þegar ég kom heim. Ég fann mig aftur í púttunum og eftir þetta mót þarf ég ekki að kvarta yfir neinu nema þessum tveimur höggum í dag.“
Bikar sem farið hefur víða
Keppt er um Hvaleyrarbikarinn og á verðlaunagripurinn sér nokkra sögu í karlaflokki. Er hann einn af elstu bikurunum í safninu hjá golfklúbbnum Keili og væntanlega með þeim elstu sem spilað er um í golfinu hérlendis. Var bikarinn gefinn af Toyota umboðinu árið 1979 eða tólf árum eftir að klúbburinn var stofnaður. Var keppt um bikarinn á opnu móti hjá Keili sem var haldið var í nokkur ár.
Bikarinn er veglegur og fremur óvenjulegur í útliti. Var hann hannaður og sérsmíðaður í listagallerí í Japan á sínum tíma. Þegar stigamótinu Hvaleyrarbikarnum var komið á fót árið 2016 þurfti að búa til annað eintak enda keppt í tveimur flokkum í Hvaleyrarbikarnum. Var bikarinn sendur til Kína með það fyrir augum að búa til eftirlíkingu en Kínverjarnir sem ætluðu að taka verkið að sér treystu sér ekki til þess þegar á hólminn var komið.
Höfðu Keilismenn þá upp á listagalleríinu í Japan og var þar smíðaður annar bikar sem gefinn var af Icewear. Þá þurfti raunar einnig að gera lítillega við bikarinn sem hafði skemmst á heimleiðinni frá Kína. Bikarinn hefur því farið nokkrar ferðir á milli Íslands og Asíu.
Smelltu hér fyrir lokastöðu og úrslit.




