Golfsamband Íslands

Hvaleyrarbikarinn 2024 – Tómas og Hulda Clara sigurvegarar

Tómas Eiríksson Hjaltested, GR og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG. Mynd/seth@golf.is

Tómas Eiríksson Hjaltested, GR og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG stóðu uppi sem sigurvegarar í Hvaleyrarbikarnum sem lauk í dag á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili. Mótið var fimmta mótið á GSÍ stigamótaröðinni á þessu tímabili.

Þetta er í fyrsta sinn sem Tómas sigrar á GSÍ stigamóti en Hulda Clara sigraði á þessu móti í fyrra en hún er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi.

Tómas lék hringina þrjá á 5 höggum undir pari samtals eða 211 höggum (65-71-75) en hann setti vallarmet á fyrsta keppnisdegi þegar hann lék á 7 höggum undir pari vallar.

Breki Gunnarsson Arndal, GKG og Jóhann Frank Halldórsson, GR voru jafnir í öðru sæti á 4 höggum undir pari vallar.

Hulda Clara lék á 225 höggum eða 9 höggum yfir pari vallar (76-73-76) og sigraði hún með fimm högga mun. Eva Kristinsdóttir, GM og Berglind Erla Baldursdóttir, GM voru jafnar í öðru sæti á 230 höggum eða +14 samtals.

Eva Kristinsdóttir Hulda Clara Gestsdóttir og Berglind Erla Baldursdóttir Myndsethgolfis
Breki Gunnarsson Arndal Tómas Eiríksson Hjaltested og Jóhann Frank Halldórsson Myndsethgolfis

Smelltu hér fyrir lokastöðu og úrslit:

Smelltu hér fyrir myndir frá Hvaleyrarbikarnum 2024:

Baráttan harðnar í Hvaleyrarbikarnum

Baráttan um sigurinn í Hvalerarbikarnum í golfi harnaði verulega á öðrum keppnisdegi í dag í Hafnarfirði en mótið fer fram hjá Golfklúbbnum Keili. Framundan er mikil spenna á lokadeginum á morgun í báðum flokkum.

Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar kann vel við sig á Hvaleyrinni og náði efsta sætinu í dag af Evu Kristinsdóttur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Eva náði sér ekki á strik og lék á 80 höggum eftir að hafa átt mjög góðan hring í gær á 70 höggum. Hulda nýtti sér það og lék á 73 höggum og bætti sig um þrjú högg milli daga. Berglind Erla Baldursdóttir einnig úr GM komst upp að hlið Evu með hring upp á 76 högg. Þær eru aðeins höggi á eftir Huldu fyrir lokahringinn og ljóst að allt getur gerst í kvennaflokknum á morgun.

Tómas Eiríksson Hjaltested úr Golfklúbbi Reykjavíkur er efstur í karlaflokki enda setti hann glæsilegt vallarmet í gær og var þá kominn sjö högg undir par. Framan af í dag virtist hann líklegur til að stinga af en rak sig á að síðari níu holurnar geta bitið frá sér á Hvaleyrinni. Tómas fékk sex fugla á fyrstu 10 holunum og var þá samtals á þrettán undir pari sem er glimrandi spilamennska eins og gefur að skilja. Eftir það fékk hann hins vegar fimm skolla og skilaði inn hring upp á 71 högg.

Hann hefur tveggja högga forskot á Jóhann Frank Halldórsson úr GR sem lék á 68 höggum í dag. Breki Gunnarsson Arndal úr GKG fór einnig undir 70 höggin og lék á 69 og er hann í þriðja sæti á þremur undir pari samtals en Tómas er á átta undir pari samtals.

Eins og í gær voru veðurguðirnir tillitssamir við kylfingana á mótaröðinni og skorið í mótinu er gott en síðari níu holurnar á Hvaleyrarvelli voru þó nokkuð erfiðar viðureignar fyrir marga. Þar hafa verið gerðar breytingar á vellinum og opnuðu tvær nýjar brautir fyrr í sumar og fleiri eru nýlegar frá undanförnum árum.

Úrslitin í mótinu ráðast á morgun og þá kemur einnig í ljós hverjir verða stigameistarar GSÍ árið 2024.

Áhugasömum er einnig bent á samfélagsmiðlana hjá Keili þar sem ýmislegt efni er að finna sem tengist Hvaleyrarbikarnum.

Glæsilegt vallarmet hjá Tómasi

Tómas Eiríksson Hjaltested úr Golfklúbbi Reykjavíkur tók afgerandi forystu í karlaflokki á fyrsta keppnisdegi Hvaleyrarbikarsins í golfi í Hafnarfirði og setti um leið nýtt vallarmet á Hvaleyrarvelli.

Tómas lék á 65 höggum í blíðskaparveðri og var á sjö höggum undir pari vallarins sem hefur verið breytt á síðustu árum. Fyrr í sumar voru tvær nýjar brautir teknar í notkun og besta skorið af meistaraflokksteigum eftir það var 68 högg hjá Axel Bóassyni eða þar til í dag.

Fimm kylfingar léku á 70 höggum og koma næstir. Í þeim hópi er Íslandsmeistarinn Aron Snær Júlíusson úr GKG en hann er einnig efstur á stigalistanum á mótaröðinni. Jóhann Frank Halldórsson GR, Arnar Daði Svavarsson GKG, Aron Emil Gunnarsson Golfklúbbi Selfoss og Kristófer Orri Þórðarson GKG léku einnig á 70 höggum.

Eva Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar var sú eina sem lék undir pari í kvennaflokki. Hún lék á 70 höggum og er því á tveimur undir pari. Fjórum höggum á eftir henni kemur Berglind Erla Baldursdóttir einnig úr GM. Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG lék á 76 höggum eins og Andrea Ýr Ásmundsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar.

Hulda sigraði í Hvaleyrarbikarnum í fyrra og er í þriðja sæti stigalistans á mótaröðinni en Hvaleyrarbikarinn er jafnframt lokamótið á mótaröð GSÍ.

Annar hringurinn verður leikinn á morgun og lýkur mótinu á sunnudag þegar kylfingarnir hafa leikið 54 holur eins og tíðkast á stigamótunum.

Hvaleyrarvöllur hefur lengi verið einn besti keppnisvöllur landsins og nú gæti verið lag fyrir einhverja af okkar snjöllustu kylfingum að setja vallarmet í ljósi þess að tvær nýjar brautir voru teknar í notkun í sumar. Þar af leiðandi hefur völlurinn tekið breytingum sem kallar meðal annars á ný vallarmet. Hér gæti því skapast tækifæri til að skrá nafn sitt í sögu klúbbsins, ekki síst ef veðurguðirnir verða kylfingum hagstæðir.

Völlurinn er í virkilega góðu ásigkomulagi og reiðubúinn til að taka á móti bestu kylfingum á mótaröðinni. Móts­hald­ar­ar hjá Golf­klúbbn­um Keili leggja mikla áherslu á að um­gjörð Hval­eyr­ar­bik­ars­ins sé eins og best verður á kosið og aðbúnaður kepp­enda sé góður. Kylf­ing­ar geta til að mynda slegið á grasi á æf­inga­svæðinu við Hraun­kot fyr­ir og eft­ir hring­ina í stað þess að slá á gervi­grasi.

Þá verða Keilismenn virkir á samfélagsmiðlum meðan á Hvaleyrarbikarnum stendur og þar verður hægt að fá ýmis tíðindi frá mótinu beint í rafræna æð.

Aron og Ragnhildur í efstu sætum

Nýbakaður Íslandsmeistari Aron Snær Júlíuson úr GKG er í býsna góðri stöðu á stigalista karla. Hann ætlar sér eflaust að bæta stigameistaratitlinum við Íslandsmeistaratitilinn en Aron Emil Gunnarsson, GOS, er í öðru sæti listans. Logi Sigurðsson GS er í þriðja sæti en Logi varð Íslands- og stigameistari í fyrra. Eru þeir allir skráðir til leiks í Hvaleyrarbikarnum.

Staðan er nokkuð frábrugðinn í kvennaflokki því tvær efstu á stigalista kvenna geta ekki tekið þátt í mótinu en það eru þær Ragnhildur Kristinsdóttir GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir Keili.

Hulda Clara Gestsdóttir GKG sem er í þriðja sæti listans er skráð til leiks en einnig gætu Eva Kristinsdóttir, GM, Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, Fjóla Margrét Viðarsdóttir, GS og Elsa Maren Steinarsdótir Keili blandað sér í baráttuna um efstu sætin með góðri spilamennsku í Hvaleyrarbikarnum.

Í Hvaleyrarbikarnum skapast upplagt tækifæri fyrir Hafnfirðinga og aðra áhugasama um golfíþróttina að rölta með kylfingunum og fylgjast með þeim takast á við völlinn. Mótið er mjög sterkt sem sést best þegar forgjöf kylfinganna er skoðuð. Margir kylfingar í mótinu eru með + í forgjöf. Hulda Clara er með lægstu forgjöfina hjá konunum eða +5,1 í forgjöf. Hún sigraði á mótinu í fyrra. Hjá körlunum er Sigurður Arnar Garðarsson einnig úr GKG með lægstu forgjöfina en hann er með +5,2.

Bikarinn hannaður í Japan

Keppt er um Hval­eyr­ar­bik­ar­ana eins og nafn mótsins gefur til kynna. Verðlauna­grip­ur­inn á sér nokkra sögu og óvenjulega. Er hann einn af elstu bik­ur­un­um í safn­inu hjá golf­klúbbn­um Keili. Var bik­ar­inn gef­inn af Toyota umboðinu árið 1979 eða tólf árum eft­ir að klúbbur­inn var stofnaður. Var keppt um bik­ar­inn á opnu móti hjá Keili sem haldið var í nokk­ur ár.

Bik­ar­inn er veg­leg­ur og frem­ur óvenju­leg­ur í út­liti. Var hann hannaður og sér­smíðaður í listagalle­rí í Jap­an á sín­um tíma. Þegar stiga­mót­inu Hval­eyr­ar­bik­arn­um var komið á fót árið 2016 þurfti að búa til annað ein­tak enda keppt í tveim­ur flokk­um í Hval­eyr­ar­bik­arn­um. Var bik­ar­inn send­ur til Kína með það fyr­ir aug­um að búa til eft­ir­lík­ingu en Kín­verj­arn­ir sem ætluðu að taka verkið að sér treystu sér ekki til þess þegar á hólm­inn var komið.

Höfðu Keil­is­menn þá upp á listagalle­rí­inu í Jap­an og var þar smíðaður ann­ar bik­ar sem gef­inn var af Icewe­ar. Þá þurfti raun­ar einnig að gera lít­il­lega við bik­ar­inn sem hafði skemmst á heim­leiðinni frá Jap­an. Bik­ar­inn hef­ur því farið nokkr­ar ferðir á milli Íslands og Asíu.

Exit mobile version