Golfsamband Íslands

Hvernig fór Ingibergur að þessu?

– PGA á Íslandi – Slá örvhent með kylfu fyrir rétthenta

Ingibergur Jóhannsson PGA-kennari er þaulreyndur í faginu sem leikmaður og keppnismaður. Ingibergur á og rekur ferðaskrifstofuna Golfskálann og golfverslunina Golfskálann. Golf á Íslandi var á dögunum á Alicante-vellinum í samnefndri borg þar sem Ingibergur leysti erfitt högg með einföldum hætti.

Ingibergur er rétthentur en í þessu höggi sló hann örvhent. Golf á Íslandi fékk Ingiberg til þess að útskýra höggið og hvernig best er að athafna sig við slíkt högg.

Leyfum sköpunargáfunni að ráða

„Þegar við erum að byrja í golfi þá er gjarnan hugsunin sú að hver kylfa í golfsettinu hafi ákveðinn tilgang. Sem dæmi þá er sandjárnið (SW) notað í sandi, pútterinn á flötinni, drífarinn (driver) af teig og vissulega þá er það rétt að oftast eru þessar kylfur notaðar við svipaðar aðstæður.

En svarið sem ég held að flestir golfkennarar gefi er að við notum þá kylfu sem hentar best hverju sinni. Við þurfum sem sagt að leyfa sköpunargáfunni að ráða. Það má með öðrum orðum slá upphafshögg af teig með pútter ef viðkomandi metur aðstæður þannig að það sé best.

Axlarhreyfingin ræður ferðinni

Flestir kylfingar hafa lent í því að kúlan stöðvast þannig að ekki er hægt að taka eðlilega stöðu til að slá hana aftur. Eins og sést á myndinni þá er kúlan á glompubrúninni og ég hefði því þurft að standa ofan í glompunni til að framkvæma höggið. En í stað þess þá valdi ég að slá örvhent með kylfu fyrir rétthenta. Í höggum sem þessum þá vel ég kylfu með frekar meiri en minni fláa, sem dæmi SW eða 52°- 56°.

Í þessu tilviki var um stutt vipp að ræða. Ég tek örvhent grip og sný kylfunni þannig að hún standi á tánni (sný henni á hvolf), set þungann aðeins meira í fremri fót, í þessu tilviki í hægri fótinn.

Í högginu sjálfu passa ég mig á að hreyfingin komi einungis frá öxlunum, rétt eins og pendúlhreyfingin í púttstroku. Í aftursveiflunni á engin hreyfing að vera á líkamanum til vinstri, höfuðið á alltaf að vera í sömu hæð og úlnliðirnir hlutlausir. Myndin sem ég bý til í huganum er að ég hermi eftir kólfinum í klukkunni, þ.e. sem fæstar hreyfingar aðrar en pendúlhreyfingin.

Tilfellið er að í golfinu lendum við í alls konar aðstæðum sem leyfa ekki eðlilegar/venjubundnar aðferðir og því er mikilvægt að við æfum alls konar lausnir til að vera betur undirbúin að takast á við þær. Næst þegar þú ferð á æfingasvæðið þá er um að gera að prófa þetta.“


 

Exit mobile version