Site icon Golfsamband Íslands

Ísland í 7. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn á Heimsmeistaramóti stúlknalandsliða

Heimsmeistaramót stúlknaliða í golfi fer fram í Kanada næstu daga og er Ísland á meðal þeirra þjóða sem leika á því móti.

Keppnisfyrirkomulagið er höggleikur þar sem leiknar verða 72 holur, 18 holur á dag. Tvö bestu skorin í hverri umferð telja í liðakeppninni – en einnig er keppt í einstaklingskeppni. Þetta er í annað sinn sem Íslands fær boð um að taka þátt á þessu móti.

Lið Íslands er þannig skipað: Auður Bergrún Snorradóttir, Eva Kristinsdóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir. Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, er með liðinu sem þjálfari og Baldur Gunnarsson er sjúkraþjálfari liðsins.

Ísland er í 7. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn. Eva Kristinsdóttir lék á pari vallar, eða 72 höggum og er hún í 11. sæti í einstaklingskeppninni, Perla Sól lék á 73 höggum eða +1 og er hún í 18. sæti í einstaklingskeppninni, Auður lék á 81 höggi eða +9 og er hún í 64. sæti í einstaklingskepnnini.

Þetta er í níunda sinn sem þetta mót fer fram en fyrst var keppt árið 2014 en ekki var keppt 2020 og 2021 vegna heimsfaraldurs.

Sigurvegarinn í einstaklingskeppninni fær boð um að taka þátt á LPGA atvinnumóti sem fram fer í Kanada.

Smelltu hér fyrir stöðuna í liðakeppninni:

Smelltu hér fyrir stöðuna í einstaklingskeppninni:


Þjóðirnar sem taka þátt eru:

Belgía
Kanada 1
Kanada 2
Taívan
England
Finnland
Perú
Svíþjóð
Danmörk
Þýskaland
Ísland
Írland
Mexíkó
Suður-Kórea
Spánn
Sviss
Kólumbía
Tékkland
Frakkland
Hong Kong
Ítalía
Marokkó
Pólland
Bandaríkin

Eins og áður segir er þetta er í annað sinn sem Ísland fær boð um að taka þátt á þessu móti.

Í fyrra endaði Ísland í 20. sæti. Helga Signý Pálsdóttir, Pamela Ósk Hjaltadóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir skipuðu lið Íslands á því móti.

Exit mobile version