Auglýsing

Valdís Þóra Jónsdóttir, þrefaldur Íslandsmeistari í golfi, spáir í spilin fyrir Íslandsmótið 2019

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi sigraði á Íslandsmótinu í golfi í fyrsta sinn á ferlinum á Grafarholtsvelli árið 2009. Frá þeim tíma hefur Skagakonan landað tveimur titlum til viðbótar, á Hellu árið 2012 og á Hvaleyrarvelli árið 2017.

Valdís Þóra er með keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð kvenna í Evrópu, LET Evrópumótaröðinni. Hún verður í harðri keppni á Opna skoska meistaramótinu á sama tíma og Íslandsmótið 2019 fer fram á Grafarholtsvelli og getur því ekki tekið þátt að þessu sinni.

Valdís Þóra valdi nokkrar holur á Grafarholtsvelli sem hún telur að séu lykilholur til að ná góðu skori á Íslandsmótinu 2019. 


Mynd: Tristan Jones

5. braut – par 4 

Hvítir teigar: 324 metrar.
Bláir teigar: 256 metrar.

„Hérna er mikilvægt að velja rétta kylfu af teig og rétta línu. Fimmta brautin liggur í hundslöpp til vinstri og örlítið upp í móti. Of mikil kylfa gæti komið þér í vandræði hægra megin við brautina. Of lítil kylfa, eða línan tekin of langt til vinstri, getur einnig komið þér í algjör vandræði fyrir innáhöggið. Flötin er upphækkuð og erfitt að meta nákvæmlega lengd höggsins og hvar holan er. Ef innáhöggið er of stutt bíður þín óþægilegt vipp upp á flötina sem gerir þér erfitt fyrir að meta lengd og lendingarsvæði. En ef þú ferð yfir flötina bíða þín tré og skemmtilegt niður í móti vipp á flöt sem hallar öll frá þér. Þetta er hola sem maður gengur af sáttur með par.“ 


7. braut – par 4
Hvítir teigar: 322 metrar.
Bláir teigar: 299 metrar.

„Að mínu mati er teighöggið á 7. braut það mikilvægasta. Glompur og rusl hægra megin við brautina geta flækt innáhöggið til muna. Ef taugarnar eru þandar á teignum og þú tekur boltann með þér til vinstri þá ertu komin í karga sem getur orðið ansi þéttur. Hér vill maður hitta brautina. Einnig er vandasamt að velja rétta kylfu fyrir innáhöggið. Flötin er frekar einföld þegar á hana er komið.“ 


11. braut – par 3

Hvítir teigar: 163 metrar. 
Bláir teigar: 145 metrar.

„Mér hefur aldrei líkað vel við 11. brautina. Stutt par 3 hola en flötin í miklum halla. Ef það blæs frá hægri til vinstri á flötina verður þessi hola gífurlega erfið. Flötin er oftast mjög hörð og erfitt að stöðva boltann í miklum halla. Þó svo að þú hittir flötina í einu höggi er parið alls ekki gefið.“


15. braut – par 5

Hvítir teigar: 527 metrar. 
Bláir teigar: 442 metrar. 

„Þetta er braut sem getur bæði gefið og tekið. Vallarmörk vinstra megin og skurður hægra megin alla leið. Þó svo að brautin sé tiltölulega breið þá er teighöggið vel niður í móti og margt sem getur farið úrskeiðis. Flötin er vel varin, tjörn fyrir framan, skurður og glompur hægra megin, vallarmörk vinstra megin og ekki gott að fara yfir flötina heldur. Ég lærði seinna meir að vera bara sátt með þrjú högg inn á flöt og reyna að koma þriðja högginu í fuglafæri frekar en að reyna við flötina í tveimur höggum.“


17. braut – par 3

Hvítir teigar: 174 metrar.
Bláir teigar: 160 metrar.

„Frá teignum lítur þessi hola sakleysislega út en hún getur oft farið illa með mann. 

Flötin er löng og mjó og ef það blæs á móti getur upphafshöggið orðið langt og erfitt. Umhverfið í kringum flötina gefur mikla möguleika á vondri legu eða erfiðu vippi. Það er hreinlega stundum betra að slá of stutt fyrir framan flötina heldur en að reyna of mikið.“


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ