„Ég kann vel við það að fljúga undir ratstjánni þegar kemur að svona stórmótum. Það eru fáir að minnast á mig. Ég er eins og Charles Howell á PGA mótaröðinni. Við gætum gengið um í Kringlunni, án þess að nokkur maður þekkti okkur,“ segir GR-ingurinn Andri Þór Björnsson í léttum tón þegar hann var inntur eftir möguleikum sínum á Íslandsmótinu í golfi 2020.
Andri Þór hefur náð góðum árangri á Hlíðavelli og hann sigraði m.a á ÍSAM-mótinu sem fram fór hjá GM um miðjan maí s.l. Hann var í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn á Grafarholtsvelli í fyrra þar sem hann endaði í 5. sæti á -3 samtals.
„Ég þekki Hlíðavöll nokkuð vel. Undirbúninguinn hefur gengið vel. Það hafa verið gerðar áhugaverðar breytingar á vellinum. Ég er mjög ánægður með breytingarnar, völlurinn er alveg eins og ég vil hafa hann. Það á að vera erfitt að slá af teig, og hitta brautir, á stærsta golfmóti ársins þar sem að Íslandsmótið fer fram.“
Eins og áður segir endaði Andri Þór á meðal fimm efstu á Íslandsmótinu fyrir ári síðan. Hann er með keppnisrétt á Nordic-Tour atvinnumótaröðinni og Áskorendamótaröð Evrópu eftir að hafa komist inn á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar s.l. haust.
„Ég á alveg möguleika á að sigra, og nafnið mitt fer á bikarinn, það er bara spurning um tímasetningu. Ég tek bara gömlu lummuna á þetta, eitt högg í einu, ein hola í einu, einn hringur í einu. Ég er bjartsýnn og veðrið mun spila stórt hlutverk. Ef veðrið verður í lagi þá mun skorið vera lágt.“
Andri Þór lék þrjá hringi á ÍSAM mótinu í vor á -3 samtals og hann er þakklátur fyrir það tækifæri að fá að keppa á Íslandsmótinu í golfi 2020.
„Ég hélt að tímabilið væri búið útaf Covod-19. Ég er þakklátur fyrir að fá að spila. Það verða engir aðstoðarmenn í þessu móti. Þá þarf maður bara að gíra sig upp í að halda þetta út. Veðrið verður allskonar og það munar mikið um að vera ekki með aðstoð ef veðrið er slæmt. En við erum öll á sama stað með þetta, nú reynir á kartakterinn, og vera þolinmóður.“