Auglýsing

„Það er gríðarlega gaman að fá tækifæri til þess að keppa á Íslandsmótinu í golfi við þessar aðstæður sem eru uppi í dag,“ segir Ragnhildur Kristinsdóttir, klúbbmeistari GR 2020 í golfi.

Ragnhildur er til alls líkleg í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn 2020 í kvennaflokki eftir sigur hennar á sterku meistaramóti GR. Þar að auki hefur GR-ingurinn náð frábærum árangri á Hlíðavelli í Mosfellsbæ á stigamótaröð GSÍ undanfarin misseri. 

„Ég á góðar minningar héðan og hef sigrað á tveimur mótum á stigamótaröð GSí á þessum velli. Það var eftirminnilegt að sigra á „Anniku“ mótinu þegar Annika Sörenstam var að fylgjast með okkur,“ segir Ragnhildur sem stundar nám í bandaríska háskólanum Ea­stern Kentucky. 

„Það fór aðeins um mig í síðustu viku þegar óvissa ríkti um hvort Íslandsmótið í golfi færi fram eða yrði frestað. Ef mótinu hefði verið frestað eru allar líkur á því að ég hefði ekki getað verið með. Ég er á undanþágu frá skólanum að vera á Íslandi núna. Ég þarf að fara strax að mótinu loknu til Bandaríkjana og taka út tveggja vikna sóttkví til að fá að mæta í tíma á haustönninin.“ 

Ragnhildur kann eins og áður segir vel við sig á Hlíðavelli en hún segir að keppnisvöllurinn hafi breyst mikið frá því í maí. 

„Þetta eru allt aðrar aðstæður í dag, Í maí var völlurinn grjótharður og boltinn rúllaði mikið á brautum og flötum. Í dag er þetta allt mun erfiðara. Karginn er hár en ég kann vel við þessar aðstæður – svona á þetta að vera.“ 

Ragnhildur sigraði með töluverðum yfirburðum á meistaramóti GR – þar sem hún lék fjóra keppnishringi á -10 samtals. Hún var m.a. sjö höggum betri en Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á því móti. Sjálfstraustið er því til staðar hjá Ragnhildi þegar hún mætir til leiks á Íslandsmótið 2020. 

„Hakan á mér fór aðeins upp eftir sigurinn á meistaramótinu hjá GR. Ég var búin að bíða nokkuð lengi eftir því að landa svona skori á fjögurra daga móti. Að enda í tveggja stafa tölu undir pari á meistaramótinu er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Mér leið eins og ég gæti ekki slegið lélegt högg, og púttin voru til staðar. Ég mæti með sama hugarfari í Íslandsmótið 2020 og ég ætla að gera mitt besta til að ná þeim stóra,“ segir Ragnhildur Kristinsdóttir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ