„Ég er búin að skila bikarnum og þá er bara næst að sækja hann á ný á sunnudaginn,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir ríkjandi Íslandsmeistari í kvennaflokki í golfi. Keiliskonan fagnaði sínum fyrsta sigri á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum árið 2018 og hún varði titilinn í fyrra á Grafarholtsvelli á frábæru skori, -3 samtals.
Guðrún Brá er fyrsti Íslandsmeistarinn frá árinu 1996 sem nær að verja Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki. Hún telur samt sem áður að „átta í röð“ met Karenar Sævarsdóttur“ sé ekki í mikilli hættu.
„Við sjáum bara til eftir helgina hvernig staðan verður á þessu hjá mér. En ef allt væri eðlilegt þá væri ég að keppa á LET Evrópumótaröðinni á þessum tíma. Það verður vonandi raunin á næstu árum og metið hennar Karenar er því ekki í stórhættu.“
Guðrún Brá hefur náð góðum árangri á Hlíðavelli í gegnum tíðina. Hún sigraði á ÍSAM heimslistamótinu sem fram fór á Hlíðavelli um miðjan maí s.l.
„Ég hef náð nokkrum sigrum hérna í gegnum tíðina. Og ég er því bjartsýn á framhaldið. Það var smá stress hjá mér í aðdraganda mótsins út af óvissunni varðandi Covid-19. Sem betur fer þá var niðurstaðan að við fáum að keppa. Ég tel að við séum mjög heppin að fá þetta tækifæri. Ég er þakklát fyrir að fá að tækifæri að spila á stórmóti á þessum tímum.“
Guðrún Brá hefur leikið margoft á Hlíðavelli og hún segir að völlurinn sé í frábæru ástandi.
„Það er búið að gera góðar breytingar á vellinum, hann er í frábæru standi, og ég held að skorið verði lágt ef veðrið verður í lagi. Sérstaklega í karlaflokknum, þar gætum við séð skor sem hafa ekki sést á Íslandi. Í kvennaflokknum gæti skorið einnig verið mjög gott. Það er búið að lengja 1. brautina töluvert – sem er bara fín lausn að mínu mati. Ég er ekki eins hrifin af breytingunni á 16. þar sem við erum að slá á „gula“ teignum. Ég vona að við fáum tækifæri að slá á okkar teig á þeirri holu og komast í færi að fá „örn“. Það þurfa líka að vera slíkar holur fyrir okkur í kvennaflokknum.“