Auglýsing

Íslandsmót unglinga í höggleik 2021 fer fram dagana 20.-22. ágúst og verður leikið á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Golfsamband Íslands er framkvæmdaraðili mótsins í samvinnu við Golfklúbb Mosfellsbæjar.

Opnað hefur verið fyrir skráningu í mótið – smelltu hér til að skrá þig.

Íslandsmót unglinga í höggleik

Þátttökugjöld skulu greidd við skráningu. Þátttökugjald fæst einungis endurgreitt séu forföll boðuð eigi síðar en kl. 18:00, þriðjudaginn fyrir mótið.

Keppt skal í eftirtöldum flokkum. Aldur miðast við almanaksár.

Keppt er í eftirtöldum flokkum:

Piltaflokkur 19 – 21 árs – Hvítir teigar

Stúlknaflokkur – 19 – 21 árs – Bláir teigar

Piltaflokkur – 17 – 18 ára – Hvítir teigar

Stúlknaflokkur – 17 – 18 ára – Bláir teigar

Drengjaflokkur – 15 – 16 ára – Gulir teigar

Telpnaflokkur – 15 – 16 ára – Bláir teigar

Strákaflokkur – 14 ára og yngri – Bláir teigar

Stelpuflokkur – 14 ára og yngri – Rauðir teigar

Mótsstjórn er heimilt að hafa niðurskurð í einum eða fleiri flokkum að loknum 36 holum.

Eftir 36 holu leik skal leikmönnum fækkað þannig að þau 70% leikmanna sem eru með besta skor í hverjum flokki halda áfram keppni, þó skulu 9 leikmenn í hverjum flokki komast áfram að lágmarki. Ef leikmenn eru á sama skori og sá sem er með lakastan árangur þeirra sem halda áfram skulu þeir báðir/allir halda áfram.

Hámarksfjöldi leikmanna er 144, þ.e. 18 í hverjum flokki. Ef ekki er full skráning í einhverjum flokkum skal fjölgað í öðrum flokkum í hlutfalli við hversu mikil umframskráning er í þeim flokkum. Að slíkum tilfærslum loknum skal hámarksfjöldi leikmanna í hverjum flokki aukinn þannig að hann verði heilt margfeldi af þremur, jafnvel þótt það leiði til þess að heildarfjöldi keppenda verði meiri en 144.

Ef fjöldi skráðra leikmanna í flokki fer yfir endanlegan hámarksfjölda í flokknum ræður forgjöf því hverjir fá þátttökurétt og skal þá miðað við forgjöf leikmanna kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur. Standi val á milli leikmanna með sömu forgjöf skal hlutkesti ráða.

Rástímar

Rástímar verða birtir á GolfBox fyrir kl.17:00 á miðvikudeginum fyrir mót. Ræst verður út af 1. teig með 10 mínútna millibili. Á fyrsta keppnisdegi er keppendum raðað af handahófi á rástíma en annan og þriðja dag verður raðað út eftir skori.

Skráning

Þátttakendur skulu skrá sig í mótið á www.golf.is fyrir kl. 23:59 á sunnudeginum (15. ágúst) fyrir mótið. Mótsgjald er 7.500 kr.

Engar undantekningar á skráningu í mótið verða leyfðar eftir að skráningu lýkur, þó svo laus sæti séu í mótið. Allar breytingar á skráningu í mótið ber að senda tímanlega með tölvupósti á motanefnd@golf.is

Athugið að kylfingur verður ekki afskráður úr mótinu eftir að rástímar hafa verið birtir.

Æfingahringur

Einn æfingahringur án endurgjalds er heimilaður. Keppnisvöllurinn verður opinn til æfinga fyrir skráða keppendur í síðasta lagi einum degi fyrir mót. Vinsamlegast hafið samband við klúbbinn til að panta rástíma. Athugið að greiða verður mótsgjaldið áður en æfingahringur er leikinn. Að auki eru æfingaboltar fyrir hring á keppnisdögum innifaldir í þátttökugjaldi. Athugið almennar reglur um æfingahring.

Vinsamlegast hafið samband við klúbbinn tímanlega til að bóka rástíma í æfingahringi á golfmos@golfmos.is en tímasetningar fyrir æfingahringi eru miðvikudag (18. ágúst) og fimmtudag (19. ágúst) kl. 8:00-14:00.

Kylfuberar og áhorfendur

Kylfuberar eru heimilir í flokki 14. ára og yngri. sbr. reglugerð um kylfubera og reglugerð um Íslandsmót unglinga í höggleik.

Verðlaun

Veitt verða verðlaun fyrir 1. – 3. sæti í öllum flokkum. Ef keppendur eru jafnir í fyrsta sæti þá verður leikinn bráðabani en að öðru gilda móta- og keppendareglur GSÍ. Ef keppendur eru jafnir í öðrum sætum skiptast stig og verðlaun jafnt á milli þeirra keppenda.

Verðlaunaafhending verður haldin strax að lokinni keppni í hverjum aldursflokki fyrir sig.

Annað

Leikmenn skulu skrá rafrænt skor fari ræsirinn fram á það.

Áskorendamótaröðin fer fram sunnudaginn 22. ágúst í Bakkakoti. Þeir keppendur sem ná ekki í gegnum niðurskurð eiga því kost á að leika þar. Skráning í Áskorendamótið verður auglýst bráðlega.

Dómarar: Sigurður Geirsson, Davíð Baldur Sigurðsson

Mótsstjórn: Kristín María Þorsteinsdóttir, Viktor Elvar Viktorsson, Davíð Gunnlaugsson, Gísli Karel Eggertsson, Snorri Hlíðberg, Ágúst Jensson.

Birt með fyrirvara um breytingar.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ