Metfjöldi er í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi 2022 eða 44 keppendur alls.
Hlutfall kvenna hefur aldrei verið hærra eða 29%
Frá árinu 2001 hefur meðalfjöldi keppenda í kvennaflokki verið 26 eða 18% af heildarfjölda keppenda. Keppendafjöldinn í kvennaflokki í ár er 54% yfir meðaltali síðustu ára.
Alls eru fjórir fyrrum Íslandsmeistarar á meðal keppenda og þar af tveir atvinnukylfingar. Þórdís Geirsdóttir, GK, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir,GR, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG hafa allar upplifað að sigra á Íslandsmótinu.
Þórdís árið 1987 eða fyrir 35 árum og Hulda Clara hefur titil að verja en hún sigraði í fyrsta sinn í fyrra á Jaðarsvelli á Akureyri. Ólafía Þórunn hefur þrívegis sigrað, fyrst árið 2011, 2014 á Leirdalsvelli og 2016 á Jaðarsvelli á Akureyri. Guðrún Brá sigraði þrjú ár í röð, 2018 í Eyjum, 2019 á Grafarholtsvelli og 2020 í Mosfellsbæ.
Mótið í ár er því eitt það allra sterkasta þar sem flestir af forgjafarlægstu kylfingum landsins í kvennaflokki eru á meðal keppenda.
Það er að miklu að keppa fyrir atvinnukylfingana þar sem að verðlaunaféð fyrir Íslandsmeistaratitil hjá atvinnukylfingum er 500 þúsund kr.
Þórdís er elsti keppandinn í kvennaflokki, 57 ára, en hún fagnaði sínum áttunda Íslandsmeistaratitli í röð fyrr í þessum mánuði á Íslandsmóti eldri kylfinga, 50 ára og eldri. Ólafía er 30 ára og hún er sjöundi elsti keppandinn í kvennflokki og Guðrún Brá, sem er 28 ára, er í 10. sæti á þeim lista.
Yngstu keppendurnir í kvennaflokki eru 14 ára og fæddar árið 2008. Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, sem lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í holukeppni nýverið er yngst ásamt Völu Maríu Sturludóttur, frá Golfklúbbnum Leyni á Akranesi.
Meðalforgjöfin í kvennaflokknum er 2,2. Lægsta forgjöfin er +5.2 en Guðrún Brá er með þá forgjöf. Alls eru 10 keppendur í kvennaflokknum með 0 eða lægra í forgjöf.