Site icon Golfsamband Íslands

Íslandsmótið í golfi 2022 – skráningu lýkur kl. 23:59 í kvöld 19. júlí

Íslandsmótið í golfi 2022 fer fram á Vestmannaeyjavelli dagana 4.-7. ágúst 2022.

Skráning í mótið fer fram í GolfBox og er skylda að greiða mótsgjald við skráningu. Allir kylfingar geta skráð sig en tryggð þátttaka skýrist þó ekki fyrr en eftir að skráningafresti lýkur og endanlegur keppendalisti hefur verið gefinn út. Þeir kylfingar sem skrá sig í mótið en fá ekki þátttökurétt munu fá mótsgjald endurgreitt að móti loknu.

Skráningarfrestur er til kl. 23:59 í kvöld, þriðjudaginn 19. júlí 2022.

Nú þegar eru rúmlega 130 keppendur skráðir til leiks.

Smelltu hér til að skrá þig:

Golfsamband Íslands er framkvæmdaraðili Íslandsmótsins í samstarfi við Golfklúbb Vestmannaeyja. Íslandsmótið 2022 verður það fimmta í röðinni í Vestmannaeyjum frá því að völlurinn var stækkaður í 18 holur en fyrir þann tíma hafði mótið farið fjórum sinnum fram á Vestmannaeyjavelli þegar völlurinn 9 holur.

Íslandsmótið í golfi fór fram í fyrsta sinn í Vestmannaeyjum árið 1959 þar sem að heimamaðurinn Sveinn Ársælsson sigraði. Á næsta áratug fór mótið þrisvar sinnum til viðbótar fram í Vestmannaeyjum. Óttar Yngvason (GR) vann árið 1962, Magnús Guðmundsson (GA) árið 1964. Árið 1968 var tvöfaldur sigur hjá GS þar sem að Þorbjörn Kjærbo og Guðfinna Sigurþórsdóttir sigruðu. Það var jafnframt í annað sinn sem keppt var um Íslandsmeistaratitlinn í kvennaflokki.

Það liðu 35 ár þar til að Íslandsmótið fór fram að nýju í Eyjum. Birgir Leifur Hafþórsson (GL) og Karen Sævarsdóttir (GS) sigruðu árið 1996. Karen er dóttir Guðfinnu sem sigraði árið 1968. Árið 2003 sigraði Birgir Leifur á ný og þá fyrir GKG og Ragnhildur Sigurðardóttir (GR) sigraði í kvennaflokki. Kristján Þór Einarsson (GM) og Helena Árnadóttir (GR) sigruðu árið 2008. Árið 2018 sigraði Keilir tvöfalt þegar Axel Bóasson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum.

Þátttökuréttur og niðurskurður

Höggleikur í flokki karla og kvenna án forgjafar, leiknar verða 72 holur á fjórum dögum. Þátttökurétt hafa (a) íslenskir ríkisborgarar og (b) erlendir kylfingar eftir a.m.k. þriggja ára samfellda búsetu hérlendis. Hámarksfjöldi þátttakenda skal vera 150. Í karlaflokki er hámarksforgjöf 5,5 og í kvennaflokki 8,5. Þátttakendur skulu vera félagar í golfklúbbi innan vébanda GSÍ.

Þátttökurétt í hvorum flokki hafa, í þessari röð:

  1. Fyrrum Íslandsmeistarar í golfi.
  2. Leikmenn með stig á heimslista atvinnukylfinga (www.owgr.com) kl. 8:00
    morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.
  3. Leikmenn í sætum 1 – 2000 á heimslista áhugakylfinga (www.wagr.com) kl. 8:00
    morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.
  4. Leikmenn í sætum 1 – 50 á stigalista GSÍ á yfirstandandi ári. Ef tveir eða fleiri
    leikmenn eru jafnir í 50. sæti skulu þeir báðir/allir fá þátttökurétt.
  5. Aðrir leikmenn sem fjærst eru forgjafarmörkum í sínum flokki kl. 8:00 morguninn
    eftir að skráningarfresti lýkur. Standi val á milli keppenda með forgjöf jafnlangt frá forgjafarmörkum skal hlutkesti ráða.

Þó skulu að lágmarki 36 kylfingar fá þátttökurétt í hvorum flokki. Keppendum skal þó fjölgað þannig að fullir ráshópar verði í hvorum flokki.

Eftir 36 holu leik skal leikmönnum fækkað þannig að þau 60% leikmanna sem eru með besta skor í hvorum flokki halda áfram keppni. Ef leikmenn eru á sama skori og sá sem er með lakastan árangur þeirra sem halda áfram skulu þeir báðir/allir halda áfram. Einnig skulu leikmenn ætíð fá að halda áfram keppni séu þeir 10 höggum eða minna á eftir þeim leikmanni sem er í 1. sæti.

Skráning

Skráning í mótið fer fram í GolfBox og er skylda að greiða mótsgjald við skráningu. Allir kylfingar geta skráð sig en tryggð þátttaka skýrist þó ekki fyrr en eftir að skráningafresti lýkur og endanlegur keppendalisti hefur verið gefinn út. Þeir kylfingar sem skrá sig í mótið en fá ekki þátttökurétt munu fá mótsgjald endurgreitt að móti loknu.

Skráningarfrestur er til kl. 23:59 þriðjudaginn 19. júlí.

Mótsgjald og æfingahringir

Mótsgjald er 19.900 kr. Innifaldir eru tveir æfingahringir, æfingaboltar á meðan á móti stendur og miði í lokahóf. Mótsgjald fæst einungis endurgreitt séu forföll boðuð eigi síðar en kl. 18:00, þremur dögum fyrir fyrsta keppnisdag. Formlegir æfingadagar eru frá hádegi þriðjudaginn 2. ágúst og miðvikudaginn 3. ágúst. Fyrirséð er að það verði mikil eftirspurn eftir æfingahringjum á formlegum æfingadögum. Því verður opið fyrir æfingahringi frá og með 20. júlí og eru kylfingar hvattir til að taka æfingahringi tímanlega.

Vinsamlegast hafið í huga mögulegar færslur á eftirfarandi teigum í mótinu, í einni eða fleiri umferðum: 

1. braut – mögulega leikur kvennaflokkur af hvítum teig

6. braut – mögulega leikur kvennaflokkur af gulum teig

7. braut – mögulega leikur karlaflokkur af gulum teig

13. braut – mögulega leikur kvennaflokkur af nýjum bláum grasteig við æfingaskýli

Kylfingar þurfa að hafa samband við golfklúbbinn til að bóka rástíma á golf@eyjar.is eða í síma 481-2363.

Vinsamlegast athugið að kylfingar þurfa að hafa skráð sig í mótið og greitt mótsgjald til að geta leikið æfingahring.

Lokahóf

Miði á lokahóf er innifalinn í mótsgjaldi. Boðið verður upp á smárétti en auka miði kostar 3.900 kr. Hægt er að kaupa auka miða á golf@eyjar.is.

Smáréttaseðill:

Ítölsk brioche-loka – Hráskinka, mozzarella, basilika, konfekttómatar, tapenade

Steamed pork buns – b.b.q pulled pork, vorlaukur, chili, gúrka, hoisin-dressing

Belgísk vaffla -Létt reykt jöklableikja, dill-krem, granatepli

Soðbrauðs smáborgari „Chimichurri“ – Hægelduð nautakinn, trufflu-krem, lauksulta, klettasalat

Anda-taco – guacamole, kimchi, sultaður rauðlaukur, chili-majónes

Verðlaun

Veitt verða peningaverðlaun fyrir 1. – 3. sæti í flokki karla og kvenna.

  1. sæti 90.000 kr. (500.000 kr. fyrir atvinnumenn) 
  2. sæti 60.000 kr. (300.000 kr. fyrir atvinnumenn)  
  3. sæti 35.000 kr. (150.000 kr. fyrir atvinnumenn)

Undankeppni

Verði umfram skráning í mótið sem nemur a.m.k. níu keppendum í öðrum hvorum eða báðum flokkum mun undankeppni fara fram. Umframskráningin skal bundin við þá leikmenn sem standast forgjafarmörk og hafa skráð sig til keppni í Íslandsmótinu innan tilskilins skráningarfrests. Keppt verður um tvö síðustu sætin í viðkomandi flokki.

Undankeppnin er 18 holu höggleikur án forgjafar og fer fram 25. júlí á Urriðavelli. Ræst verður út af 1. teig frá kl. 15:00. Verði leikmenn jafnir skal leika bráðabana um efstu tvö sætin. Mótsgjald er 3.500 kr. og skal greitt á staðnum. Undankeppnin verður því aðeins haldin að minnst fjórir keppendur skrái sig í undankeppnina í viðkomandi flokki.

Biðlisti

Verði undankeppninni aflýst (t.d. ef lágmarksfjölda þátttakenda er ekki náð) skulu leikmenn sem skráðu sig í undankeppnina hafa forgang varðandi þátttöku í Íslandsmótinu umfram þá sem ekki skráðu sig. Fari undankeppnin fram ræðst röð leikmanna á biðlista af árangri í undankeppninni og að því frátöldu af forgjöf kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.

Ef tveir eða fleiri kylfingar eru með sama skor í undankeppni (í sætum 3 og aftar) eða jafnháa forgjöf hafi þeir ekki tekið í þátt í undankeppni, ræður hlutkesti röð á biðlista. Verði forföll fyrir fyrsta keppnisdag verður haft samband við kylfinga á biðlista og þeim boðin þátttaka. Kylfingar á biðlista geta mætt á keppnisstað að morgni fyrsta keppnisdags og verið til taks ef forföll verða. Viðkomandi þurfa að gefa sig fram við afgreiðslu.

Annað

Með þátttöku í mótinu heimila keppendur myndatöku og myndbirtingar á miðlum GSÍ og hjá RÚV.

Kylfingar skulu staðfesta mætingu í afgreiðslu á æfingadögum.

Mótsstjórn: Brynjar Geirsson, Hörður Geirsson, Kristín María Þorsteinsdóttir, Viktor Elvar Viktorsson, Sigursveinn Þórðarson, Leifur Jóhannesson, Sigurjón Pálsson.

​Netfang mótsstjórnar: motanefnd@golf.is

Dómari: Þórður Ingason.

Birt með fyrirvara um breytingar.

Exit mobile version