Íslandsmótinu í golfi lauk í dag á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi.
Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og Logi Sigurðsson, GS eru Íslandsmeistarar 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem þau fagna þessum titli.
Úrslitin réðust á lokaholunni í dag í blíðviðrinu á Urriðavelli að viðstöddum fjölmörgum áhorfendum. Fréttin verður uppfærð.
1. Logi Sigurðsson, GS 273 högg (69-67-71-66) (-11)
2.Hlynur Geir Hjartarson, GOS 274 högg (70-65-68-71) (-10)
3. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG (69-65-76-67) (-7)
1. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR 283 högg (70-70-71-71) (-1)
2. -4. Andrea Björg Bergsdóttir, GKG 285 högg (74-71-72-68) (+1).
2.-4. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR 285 högg (76-69-69-71) (+1)
2.-4. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG 285 högg (70-76-67-72) (+1)
Gríðarlegur áhugi var hjá kylfingum að komast inn á keppendalista Íslandsmótsins. Alls skráðu sig 200 til leiks en aðeins 153 komust inn á keppendalistann.
Alls eru 105 karlar og 48 konur á keppendalistanum.
Aldrei áður hafa jafnmargar konur tekið þátt eða 48 – en í fyrra var nýtt met sett þegar 44 konur tóku þátt á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum.
Smelltu hér fyrir rástíma á 4. keppnisdegi:
Smelltu hér fyrir stöðuna á Íslandsmótinu í golfi 2023
Smelltu hér fyrir myndasafn frá mótinu:
3. keppnisdagur:
Frábærar aðstæður voru á Urriðavelli á þriðja keppnisdeginum þar sem að miklar sviptingar voru á meðal þeirra efstu.
Hlynur Geir Hjartarson, GOS, er með fjögurra högga forskot á 10 höggum undir pari samtals. Hann hefur leikið hringina þrjá á 70-65-68. Logi Sigurðsson, GS, er annar á 6 höggum undir pari vallar, 69-67-71. Aron Emil Gunnarsson, GOS, er í þriðja sæti fyrir lokahringinn á -5 líkt og Birgir Björn Magnússon, GK.
Í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, með tveggja högga forskot á 2 höggum undir pari samtals. Hún hefur leikið á 70-70-71. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, setti nýtt vallarmet á Urriðavelli í dag, 67 högg, og er hún á pari vallar samtals ( 70-76-67). Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, er einnig á pari vallar ( 73-69-71). Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, er á +1 samtals í fjórða sæti, (76-69-69).
‘
2. keppnisdagur:
Annar keppnisdagur á Íslandsmótinu í golfi 2023 var spennandi. Veðrið lék við keppendur og aðstæður á Urriðavelli voru eins og best verður á kosið. Vallarmetið af öftustu teigum var bætt og frábær skor litu dagsins ljós hjá mörgum keppendum.
Í karlaflokki er Andri Þór Björnsson í efsta sæti líkt og eftir fyrsta keppnisdaginn. GR-ingurinn lék á 66 höggum í dag og er á 9 höggum undir pari vallar samtals. Andri Þór lék á 67 höggum í gær og hann hefur aðeins tapað einu höggi á 36 holum.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, bætti vallarmetið í dag þegar hann lék á 65 höggum eða 6 höggum undir pari vallar. Guðmundur Ágúst fékk alls sex fugla í dag og tapaði ekki höggi. Hann er samtals á 8 höggum undir pari.
Hlynur Geir Hjartarson, GOS, jafnaði vallarmetið hjá Guðmundi Ágústi aðeins nokkrum mínútum síðar – en Hlynur Geir fékk sex fugla í dag og tapaði ekki höggi.
Logi Sigurðsson, GS, lék á 67 höggum í dag og er samtals á -6 í fjórða sæti. Þegar þetta er skrifað er keppni ekki lokið í karlaflokki en búast má við að rúmlega 60 keppendur komist í gegnum niðurskurðinn en niðurskurðarlínan miðast við 13 högg yfir pari samtals eða betra skori.
Í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, efst á 2 höggum undir pari vallar en hún hefur leikið báða hringina á 70 höggum. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK; er tveimur höggum á eftir á pari vallar (73-69). Guðrún Brá fékk fjóra fugla á síðustu 9 holunum í dag
Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA, Andrea Bergsdóttir, GKG og Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, eru jafnar í þriðja sæti á +3 og eru þær fimm höggum á eftir Ragnhildi.
Alls komust 31 keppendur í gegnum niðurskurðinn í kvennaflokki eða þeir leikmenn sem voru á 23 höggum yfir pari eða betra skori.
1. keppnisdagur:
Þrír keppendur úr GR eru í þremur efstu sætunum eftir 1. keppnisdaginn í karlaflokki. Andri Þór Björnsson, GR, er efstur á -4 en hann fékk fimm fugla á fyrri 9 holunum og einn skolla á næstu 9 holum, 67 högg alls,
Jóhannes Guðmundsson, GR og Hákon Örn Magnússon, GR eru þar á eftir á -3 eða 68 höggum.
Suðurnesjamennirnir Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, GS og Logi Sigurðsson eru á -2 líkt og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, og Aron Snær Júlíusson, GKG. Guðmundur Ágúst sigraði á Íslandsmótinu 2019 og Aron Snær árið 2021.
Í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, efst á -1 eða 70 höggum.
Alls eru 15 leikmenn á pari eða betra skori í karlaflokki. Kristján Þór Einarsson, ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, lék á +3 á fyrsta hringnum.
Keppendur eru alls 153 og koma þeir frá 18 mismunandi klúbbum víðsvegar af landinu.
Flestir keppendur eru frá GR eða 35 alls og tæp 23% af heildarfjölda keppenda, GKG er með 32 keppendur eða 21%, og GM 24 keppendur og tæp 16% af heildarfjölda.
Alls eru 9 golfklúbbar með keppendur í kvenna – og karlaflokki en heildarskiptingin er hér fyrir neðan.
Golfklúbbur | Konur | Karlar | Samtals | % af heild |
Golfklúbbur Reykjavíkur | 12 | 23 | 35 | 22.9% |
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar | 12 | 20 | 32 | 20.9% |
Golfklúbbur Mosfellsbæjar | 12 | 12 | 24 | 15.7% |
Golfklúbburinn Keilir | 4 | 12 | 16 | 10.5% |
Golfklúbbur Akureyrar | 1 | 7 | 8 | 5.2% |
Golfklúbbur Suðurnesja | 1 | 7 | 8 | 5.2% |
Golfklúbburinn Oddur | 2 | 4 | 6 | 3.9% |
Golfklúbbur Selfoss | 1 | 4 | 5 | 3.3% |
Nesklúbburinn | 5 | 5 | 3.3% | |
Golfklúbburinn Leynir | 1 | 2 | 3 | 2.0% |
Golfklúbbur Vestmannaeyja | 3 | 3 | 2.0% | |
Golfklúbbur Skagafjarðar | 2 | 2 | 1.3% | |
Golfklúbbur Borgarness | 1 | 1 | 0.7% | |
Golfklúbbur Siglufjarðar | 1 | 1 | 0.7% | |
Golfklúbbur Vatnsleysustrandar | 1 | 1 | 0.7% | |
Golfklúbburinn Esja | 1 | 1 | 0.7% | |
Golfklúbburinn Setberg | 1 | 1 | 0.7% | |
Golfklúbburinn Vestarr | 1 | 1 | 0.7% |
- Fyrst var keppt um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki árið 1942. Mótið í ár er það 82. í röðinni í karlaflokki. Alls eru 40 nöfn grafin á verðlaunagripinn í karlaflokki, 16 kylfingar hafa sigrað oftar en einu sinni.
- Fyrst var keppt um Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki árið 1967. Mótið í ár er það 57. í röðinni í kvennaflokki. Alls eru 24 nöfn grafin á verðlaunagripinn í kvennaflokki, 14 kylfingar hafa sigrað oftar en einu sinni. Kylfingar úr GR hafa oftast sigrað eða 22 sinnum, GK er með 13 titla, og GS er með 11 titla.
- Á keppendalistanum eru flestir af bestu kylfingum landsins, atvinnu – og áhugakylfingar.
- Í kvennaflokki eru allir bestu kylfingar landsins með. Þar má nefna, Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur, GK, sem er þrefaldur Íslandsmeistari og atvinnukylfingur á sterkustu mótaröð Evrópu, LET. Huldu Clöru Gestsdóttur, GKG, Íslandsmeistari 2021, Perlu Sól Sigurbrandsdóttur, GR, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi og einnig í holukeppni. Ragnhildi Kristinsdóttur, GR, sem er atvinnukylfingur á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Andreu Bergsdóttur, sem er í íslenska landsliðinu en hefur ekki keppt á Íslandsmóti frá því á Akureyri árið 2016.
- Meðalaldur keppenda í kvennaflokki er 22,4 ár og meðalforgjöf í kvennaflokki er 2,4. Elsti keppandinn í kvennaflokki er 58 ára og sú yngsta er 14 ára.
- Í karlaflokki er keppendalistinn einnig mjög sterkur. Meðalforgjöf mótsins er +0.5 og meðalaldur í karlaflokki er 26.2 ár. Elsti keppandinn er 57 ára og tveir keppendur eru fæddir árið 2009 og eru því á 14. ári.
- Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, sem leikur sem atvinnukylfingur á DP World Tour, sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, er á meðal keppenda. Hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 2019. Kristján Þór Einarsson, GM, ríkjandi Íslandsmeistari verður með ásamt fjölda annarra kylfingar í fremstur röð afreksgolfsins á Íslandi. Má þar nefna Aron Snæ Júlíusson, GKG, sem sigraði á Íslandsmótinu á Akureyri árið 2021 og á Íslandsmótinu í holukeppni í júlí 2023. Fyrrum Íslandsmeistarar í golfi sem standast forgjafarmörk Íslandsmótsins eru ávallt með keppnisrétt. Sigmundur Einar Másson, GKG, sem sigraði á Íslandsmótinu árið 2006 þegar það fór fram í fyrsta sinn á Urriðvelli er á meðal keppenda. Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari í golfi, er einnig skráður til leiks.
- Nýkrýndir Íslandsmeistarar í golfi 50 ára og eldri eru einnig á keppendalistanum, Jón Karlsson, GR, og Þórdís Geirsdóttir, GK, sem sigraði á Íslandsmótinu í golfið árið 1987.
- Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, á mótsmetið í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi. Hún lék á 11 höggum undir pari á Jaðarsvelli á Akureyri árið 2016. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, lék á -3 samtals árið 2019. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, lék á -1 á þremur keppnisdögum í Vestmannaeyjum árið 2022. Það eru þrjú bestu heildarskor Íslandsmeistara í kvennaflokki frá upphafi.
- Fjórir keppendur í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi hafa fagnað þessum titli áður. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, (2018, 2019, 2020), Hulda Clara Gestsdóttir, GKG (2021), Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR (2022), Þórdís Geirsdóttir, GK (1987).
- Meðalaldur keppenda á Íslandsmótinu 2023 í kvennaflokki er 23 ár. Elsti keppandinn er 56 ára, Þórdís Geirsdóttir, GK. Eva Fanney Matthíasardóttir, GKG, er yngsti keppandinn í kvennaflokki en hún er fædd 20.júní árið 2009 og er því 14 ára.
- Þórdís Geirsdóttir, GK, er eini keppandinn í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi 2023 sem tók einnig þátt á Íslandsmótinu 2006 á Urriðavelli.
- Meðalforgjöf keppenda í kvennaflokki árið 2006 var 9. Sú lægsta var 3. Meðalforgjöfin árið 2023 er 1.8.
- Lægsta forgjöfin í kvennaflokki er +5.3, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Alls eru 13 keppendur með 0 eða lægra í forgjöf í kvennaflokki. Árið 2006 voru keppendur 14 alls en í ár verða konurnar 47 alls sem er 240% aukning á 18 árum.
- Meðalforgjöf keppanda í karlaflokki er +0.6. Árið 2006 var meðalforgjöf keppanda 3.6. Alls eru 55 keppendur í karlaflokki eru með 0 eða lægra í forgjöf. Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, er með -5.5 í forgjöf sem er lægsta forgjöf mótsins.
- Sigmundur Einar Másson, GKG, sigraði á Íslandsmótinu í golfi árið 2006 á Urriðavelli. Það var fyrsti Íslandsmeistaratitill hans. Úlfar Jónsson varð annar á eftir Sigmundi en Úlfar, sem keppir fyrir GKG, er á meðal keppenda í ár líkt og Sigmundur Einar. Alls eru níu leikmenn sem tóku þátt á mótinu árið 2006 á meðal keppenda í ár, Sigmundur, Úlfar, Hlynur Geir Hjartarson, GOS, sem varð í áttunda sæti á mótinu 2006, Helgi Runólfsson,, Birgir Guðjónsson, Sigurþór Jónsson, Haukur Már Ólafsson, Atli Elíasson og Guðmundur Arason voru einnig með árið 2006 og eru á keppendalistanum í ár.
- Meðalaldur keppenda í karlaflokki er 26,7 ár. Guðmundur Arason, GR, er sá elsti, 57 ára. Arnar Daði Svavarsson, GKG, er sá yngsti en hann er fæddur þann 9. júlí árið 2009 og er því nýbúinn að halda upp á 14 ára afmælisdaginn.
- Alls eru 10 keppendur sem eru fæddir 2006 eða fyrr – og eru því á aldrinum 14-17 ára. Meðalforgjöf í þessum aldurshópi er 0.1.
- Í karlaflokki eru 5 keppendur sem hafa sigrað á Íslandsmótinu í golfi. Ríkjandi Íslandsmeistari, Kristján Þór Einarsson, GM hefur sigrað tvívegis og í bæði skiptin i Vestmannaeyjum (2008,2022).
- Úlfar Jónsson, GKG, mætir til leiks en hann er sexfaldur Íslandsmeistari (1986, 1987, 1989,1990, 1991 og 1992). Úlfar lék síðast á Íslandsmótinu árið 2019 í Grafarholti. Hann er næst sigursælasti kylfingurinn á Íslandsmótinu ásamt Björgvini Þorsteinssyni – sem sigraði einnig sex sinnum. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, er sá sigursælasti en hann sigraði í sjöunda sinn á ferlinum á Akureyri árið 2017.
- Bjarki Pétursson, GKG, á mótsmetið í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi en hann lék á 13 höggum undir pari samtals á Hlíðavelli í Mosfellsbæ árið 2020. Hann lék hringina þrjá á 275 höggum (72-66-69-68) og sigraði með átta högga mun.
- Metið var áður í eigu Þórðar Rafns Gissurarsonar sem lék á 12 höggum undir pari vallar á Garðavelli árið 2015 (67-73-66-70). Árið 1964 setti Magnús Guðmundsson, GA, ný viðmið í íslensku keppnisgolfi þegar hann lék á 10 höggum undir pari vallar á Vestmannaeyjavelli á Íslandsmótinu 1964. Hann var sá fyrsti sem lék fjóra keppnishringi á undir pari samtals á Íslandsmótinu í golfi. Hann sigraði með 25 högga mun á því móti. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, jafnaði þetta met 39 árum síðar á Íslandsmótinu á Leirdalsvelli hjá GKG árið 2014. Þar landaði Birgir Leifur sínum sjötta Íslandsmeistaratitli á 10 höggum undir pari samtals.
- Ragnhildur Sigurðardóttir er yngsti Íslandsmeistarinn í kvennaflokki en hún var 15 ára þegar hún fagnaði sigri árið 1985 á Akureyri.
- Úlfar Jónsson varð Íslandsmeistari 17 ára gamall árið 1986 á Hólmsvelli í Leiru. Hann er yngsti sigurvegarinn í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi en mótslok voru 2. ágúst árið 1986.
Úlfar er fæddur 25. ágúst árið 1968. Hann var 17 ára, 11 mánaða og 8 daga gamall þegar hann sigraði. - Ragnhildur Sigurðardóttir, GR, er sú yngsta sem hefur sigrað á Íslandsmótinu í golfi í kvennaflokki. Ragnhildur er fædd 21. júní 1970. Hún sigraði á Íslandsmótinu í golfi þann 4. ágúst árið 1985 og var þá 15 ára, eins mánaðar og 14 daga gömul.
- Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, er næst yngsti sigurvegarinn á Íslandsmótinu í golfi í kvennaflokki. Perla er fædd 28. september 2006 og var 15 ára, 10 mánaða og 11 daga gömul þegar hún fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í Vestmannaeyjum í fyrra.
- Karen Sævarsdóttir, GS, var 16 ára gömul þegar hún sigraði í fyrsta sinn á Íslandsmótinu í golfi árið 1989. Hún varði titilinn næstu sjö árin, sem er met sem verður seint slegið.
Glæsileg inniaðstaða opnuð hjá Golfklúbbi Akureyrar
Ný inniaðstaða hefur verið opnuð formlega á Jaðri. Það var Halldór M. Rafnsson heiðursfélagi GA ásamt Huldu Bjarnadóttur forseta GSÍ sem klipptu á rauða borðann
Guðrún Brá og Ragnhildur keppa á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina í Marokkó
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir hefja leik á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina 2025 mánudaginn 16. desember í Marokkó. Á lokaúrtökumótinu sem fram fer dagana
Mótaskrá GSÍ fyrir árið 2025
Mótaskrá Golfsambands Íslands árið 2025 liggur fyrir þó enn eigi eftir að finna keppnisvelli fyrir nokkur mót á tímabilinu. Þeir golfklúbbar sem hafa áhuga á
Gott ár hjá landssamtökum eldri kylfinga
Rekstur LEK gekk vel á árinu en samtökin veltu rúmlega 8 milljónum og var hagnaður um 4 milljónir. Áhugavert er að sjá að tekjur tvöfölduðust
Ragnhildur komst áfram á lokastig úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina
Ragnhildur Kristinsdóttir og Andrea Bergsdóttir léku á fyrra stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina 2025 en LET er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í kvennaflokki í Evrópu.