Íslandsmótið í holukeppni í kvennaflokki 2024 fer fram á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar dagana 14.-16. júní.
Opið er fyrir skráningu en skráningu lýkur í kvöld, fimmtudaginn 6. júní kl. 23:59.
Í fyrri hluta Íslandsmótsins er leikinn 36 holu höggleikur án forgjafar, þar sem sextán efstu keppendurnir komast áfram í útsláttarkeppni.
Að höggleik loknum eru leiknar fjórar umferðir í holukeppni, nánar hér fyrir neðan.
Í ár verður keppt í kvennaflokki á Hlíðavelli en Íslandsmótið í holukeppni karla 2024 fer fram á Garðavelli á Akranesi dagana 22.-24. júní.
Leikið er samkvæmt reglugerð um Íslandsmót í holukeppni í flokki karla og kvenna. Í kvennaflokki er hámarksforgjöf 8,5 en hámarksfjöldi keppenda er 84. Hámarksforgjöf miðast við forgjöf þátttakanda kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.
Þátttökurétt hafa (a) íslenskir ríkisborgarar og (b) erlendir kylfingar eftir a.m.k. þriggja ára samfellda búsetu hérlendis. Hámarksforgjöf miðast við forgjöf þátttakanda kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur. Þátttakendur skulu vera félagar í golfklúbbi innan vébanda GSÍ.
Þátttökurétt hafa:
1. Ríkjandi Íslandsmeistari í holukeppni.
2. Leikmenn með stig á heimslista atvinnukylfinga (www.owgr.com) kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.Leikmenn í sætum 1 – 2000 á heimslista áhugakylfinga (www.wagr.com) kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.
3. Stigahæstu kylfingar á stigamótaröðinni, þar til 32 þátttakendum er náð. Stig reiknast þannig að við stig ársins bætast stig frá síðasta ári, frá og með fyrsta stigamóti eftir Íslandsmótið í holukeppni, þ.e. síðasta Íslandsmót í holukeppni telur ekki í stigafjöldanum. Hér má sjá stigalistann.
4. Forgjafarlægstu kylfingarnir sem eru skráðir til leiks eftir að skráningarfresti lýkur, þar til hámarksfjölda er náð.
Séu kylfingar jafnir í sæti á stigamótaröðinni, sbr. lið 4, telst sá ofar sem ofar varð í Íslandsmótinu í golfi. Séu kylfingar enn jafnir, telst sá ofar sem náð hefur efra sæti á öðrum stigamótum. Séu kylfingar þá enn jafnir ræður hlutkesti. Séu kylfingar með jafnháa forgjöf sbr. 5 lið hér að ofan ræður hlutkesti. Miðað er við forgjöf þátttakenda kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.
Í fyrri hluta Íslandsmótsins er leikinn 36 holu höggleikur án forgjafar, þar sem sextán efstu keppendurnir komast áfram í útsláttarkeppni.
- Að höggleik loknum eru leiknar fjórar umferðir í holukeppni:
- 1. umferð: 16 manna holukeppni.
- 2. umferð: 8 manna holukeppni þeirra sem áfram komast.
- 3. umferð: Undanúrslit, 4 manna holukeppni þeirra sem áfram komast.
- 4. umferð: Úrslit, leikur um 3. sæti og úrslitaleikur.
Undankeppni
Mótsstjórn er heimilt að halda undankeppni um fjögur síðustu sætin ef umframskráning verður sem nemur a.m.k. sex sætum. Þátttaka í slíkri undankeppni skal bundin við þá leikmenn sem standast forgjafarmörk og hafa skráð sig til keppni innan tilskilins skráningarfrests. Undankeppnin er 18 holu höggleikur án forgjafar. Mótsstjórn ákveður leikstað og -tíma og setur nánari reglur, t.d. um lágmarksfjölda þátttakenda. Ákvörðun um hvort slík undankeppni verði haldin (ef næg umframskráning verður) skal verða tilkynnt þegar skráningarfresti lýkur.
Verðlaun
Veitt verða verðlaun fyrir 1. – 3. sæti.
1.sæti: 140.000 kr.
2. sæti: 100.000 kr.
3. sæti: 70.000 kr.
Mótsgjald og æfingahringir
Mótsgjald er 11.000 kr. og skal greitt við skráningu. Þátttökugjald fæst einungis endurgreitt séu forföll boðuð eigi síðar en kl. 18:00, þremur dögum fyrir fyrsta keppnisdag.
Einn æfingahringur er innifalinn í mótsgjaldi en skilyrði er að vera búin að greiða mótsgjald fyrir æfingahring. Formlegir æfingadagar eru 12. og 13. júní en rástímar fyrir æfingahringi eru kl. 8:00-15:00. Kylfingar þurfa að hafa samband við klúbbinn tímanlega til að bóka rástíma: golfmos@golfmos.is eða í 566-6999.
Þeir kylfingar sem komast ekki inn í mótið fá mótsgjald endurgreitt.
*Birt með fyrirvara um breytingar*
Alls hafa 18 leikmenn sigrað í kvennaflokki á Íslandsmótinu í holukeppni frá árinu 1988 þegar mótið fór fyrst fram.
Ragnhildur Sigurðardóttir hefur sigrað oftast eða 6 sinnum alls (1990, 1993, 1997, 2000, 2001 og 2005), Ólöf María Jónsdóttir er með 5 titla alls (1995, 1996, 1998, 1999 og 2004), Karen Sævarsdóttir sigraði þrívegis eftir að hún vann sinn fyrsta titil árið 1988 (1991, 1992 og 1994). Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sigraði þrívegis (2011, 2013 og 2020).
Fjórir leikmenn hafa sigrað tvívegis: Þórdís Geirsdóttir (1989 og 2007), Signý Arnórsdóttir (2009 og 2012), Guðrún Brá Björgvinsdóttir (2017 og 2021) og Saga Traustadóttir (2019 og 2022).
Ár | Nafn og klúbbur | Fjöldi titla |
1988 | Karen Sævarsdóttir, GS | 1 |
1989 | Þórdís Geirsdóttir, GK | 1 |
1990 | Ragnhildur Sigurðardóttir, GR | 1 |
1991 | Karen Sævarsdóttir, GS | 2 |
1992 | Karen Sævarsdóttir, GS | 3 |
1993 | Ragnhildur Sigurðardóttir, GR | 2 |
1994 | Karen Sævarsdóttir, GS | 4 |
1995 | Ólöf María Jónsdóttir, GK | 1 |
1996 | Ólöf María Jónsdóttir, GK | 2 |
1997 | Ragnhildur Sigurðardóttir, GR | 3 |
1998 | Ólöf María Jónsdóttir, GK | 3 |
1999 | Ólöf María Jónsdóttir, GK | 4 |
2000 | Ragnhildur Sigurðardóttir, GK | 4 |
2001 | Ragnhildur Sigurðardóttir, GR | 5 |
2002 | Herborg Arnarsdóttir, GR | 1 |
2003 | Helga Rut Svanbergsdóttir, GKj./GM | 1 |
2004 | Ólöf María Jónsdóttir, GK | 5 |
2005 | Ragnhildur Sigurðardóttir, GR | 6 |
2006 | Anna Lísa Jóhannsdóttir, GR | 1 |
2007 | Þórdís Geirsdóttir, GR | 2 |
2008 | Ásta Birna Magnúsdóttir, GK | 1 |
2009 | Signý Arnórsdóttir, GK | 1 |
2010 | Valdís Þóra Jónsdóttir, GL | 1 |
2011 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR | 1 |
2012 | Signý Arnórsdóttir, GK | 2 |
2013 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR | 2 |
2014 | Tinna Jóhannsdóttir, GK | 1 |
2015 | Heiða Guðnadóttir, GM | 1 |
2016 | Berglind Björnsdóttir, GR | 1 |
2017 | Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK | 1 |
2018 | Ragnhildur Kristinsdóttir, GR | 1 |
2019 | Saga Traustadóttir, GR | 1 |
2020 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR | 3 |
2021 | Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK | 2 |
2022 | Saga Traustadóttir, GKG | 2 |
2023 | Perla Sól Sigurbrandsdóttir | 1 |