/

Deildu:

Auglýsing

– Goðsögnin John Garner miðlaði reynslu sinni til íslenskra kylfinga í sumar

Viðtal úr 5. tbl. Golf á Íslandi 2017.

Ég hafði aldrei hitt John Garner áður en við settumst niður með kaffibolla í klúbbhúsi Leynis á Akranesi í lok september á þessu ári. Nafn hans hafði ég oft heyrt frá fyrrum lærisveinum hans úr íslenska landsliðinu á árum áður. Allir höfðu þeir á orði hversu frábær kennari og persóna Garner væri. Og eftir klukkutíma spjall og kennslustund á æfingasvæðinu er ég ekki í vafa. Garner er einstakur og hæfileikaríkur kennari, og þrátt fyrir alla reynsluna og 70 æviár er sá „gamli“ svo sannarlega með blik í augum þegar hann miðlar þekkingu sinni til nemanda sinna.

Ferilskrá Garners er engu lík. Hinn sjötugi heiðursmaður var tvívegis í Ryder-liði Evrópu og státar af sigri á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Garner var landsliðsþjálfari Íslands á árunum 1988-1994 og á hann góðar minningar frá þeim tíma.

Garner giftist árið 2004 íslenskri konu, Svölu Óskarsdóttur Garner, en hún var í fremstu röð sem kylfingur á Íslandi á árum áður. En hvernig stóð á því að Garner kom til Íslands sl. sumar að kenna golf?

Ég er heppinn að eiga vini á borð við Björgvin Þorsteinsson

„Ég er heppinn að eiga vini á borð við Björgvin Þorsteinsson sem gerði það mögulegt að ég kæmi til Íslands sumarið 2017. Björgvin bauð mér að koma til Íslands og koma mínum hugmyndum til þeirra sem hefðu ekki kost á því að fara til golfkennara. Ég þáði boðið og hef átt dásamlegan tíma hérna á Íslandi. Við Svala konan mín höfum farið víða en við vorum með aðsetur á Akureyri í sumar. Ég verð að fá að þakka GA fyrir þeirra framlag, gestrisni þeirra og móttökur voru fyrsta flokks. Aðstaðan hjá GA er líka frábær – í fremstu röð. Við fórum einnig á staði á borð við Húsavík, Dalvík, Sauðárkrók, Blönduós og Egilsstaði.

Björgvin Þorsteinsson

Ísland er fallegra en ég hélt, og ég naut hvers augnabliks á þessum ferðalögum í sumar. Ég verð að nota tækifærið og þakka Bíleigu Akureyrar/Höldur/Europcar fyrir stuðninginn ásamt GA, GL og Birgir Leifur Hafþórsson hefur einnig aðstoðað okkur mikið. En Björgvin á heiðurinn af þessu öllu.“

John Garner ræðir hér við Valdísi Þóru Jónsdóttur á æfingasvæðinu á Akranesi. 

Garner var í fremstu röð sem atvinnukylfingur á hátindi ferilsins

Eins og áður segir var Garner landsliðsþjálfari Íslands á árunum 1988-1994 en hann kom hingað til lands á ný árið 2002.

„Þá var ég með aðstöðu í Intersport og verslun sem hét Nevada Bob. Á þeim tíma fannst mér erfitt að vinna í kuldanum á Íslandi, og ég var með mikla verki í hnjánum sem voru léleg. Við Svala ákváðum að flytja í hlýrra loftslag og Nýja-Sjáland varð fyrir valinu. Þar höfum við komið okkur upp æfingaaðstöðu við Manukorihi-völlinn í bænum Taranaki. Ég elska enn að kenna og ég trúi því að fyrsta upplifun nýliða í golfinu sé sú mikilvægasta. Þar þarf að vanda til verka og mér finnst það skemmtilegast við kennsluna – að sjá framfarir hjá nemendum mínum.“

Garner var í fremstu röð sem atvinnukylfingur á hátindi ferilsins. Hann þekkir því allar hliðar golfíþróttarinnar. „Sumir segja að golfið sé skemmtun, jú vissulega getur það verið þannig, en fyrir mig var þetta alltaf áskorun. Það er áskorunin sem dregur fólk áfram í að bæta sig, komast undir 100 höggin, bæta sig enn frekar og ná að komast undir 90 högg. Ég hef leikið ýmsar íþróttir og það sem mér fannst alltaf mest heillandi við golfið var að þar var ekki hægt að fela sig í liðinu. Þú varðst að standa þig þarna úti og taka ákvarðanir sem voru oft erfiðar. Ég hugsa oft til þeirra tíma þegar ég var í baráttunni á atvinnuferlinum. Skemmtun var ekki það sem ég var með í huga úti á vellinum, þetta var oft mjög erfitt, krefjandi og mikil áskorun.“

„Ég er með það mikið af stáli í mér“

Miklar æfingar og álag hefur tekið sinn toll á líkama Johns Garner. Á undanförnum misserum hefur hann fengið nýja liði í bæði hnén, annar olnboginn er illa farinn en hann hefur enn gaman af því að æfa sig í golfi. „Þegar ég fer í gegnum eftirlitskerfi á flugvöllum þá fer allt í gang, ég er með það mikið af stáli í mér,“ segir Garner í léttum tón. „Ég reyni að æfa mig á hverjum einasta degi og slæ þá 100 bolta. Fyrir 2-3 árum gat ég ekki slegið nema 20 bolta en ástandið er betra í dag og mér líður betur.“

Við höldum út á æfingasvæðið þar sem Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur er við æfingar í hryssingslegu haustveðri. Garner gefur sér tíma og skoðar sveifluna gaumgæfilega hjá Valdísi, gefur góð ráð og ræðir við atvinnukonuna. „Hún er með flotta sveiflu þessi unga kona og gæti náð langt,“ segir Garner og kastar einum bolta á æfingamottuna fyrir mig. „Sláðu,“ segir hann, og ég gerði það. „Þú ert með svona 7-8 í forgjöf og sjankar oft,“ sagði Garner við mig eftir þetta eina högg og hann hitti naglann beint á höfuðið.

„Of mikil áhersla  á högglengd og kraft“

Tæknin hefur breytt miklu í áherslu hjá atvinnukylfingum og golfkennurum á undanförnum árum en Garner vonar að menn missi ekki sjónar á grundvallaratriðum leiksins.

„Golfleikurinn hefur ekki breyst mikið. Til að ná góðu skori þarf að slá vel af teig, hitta brautina og flötina. Mér finnst of mikil áhersla vera í dag á högglengd og kraft. Minni áhersla á nákvæmni og að geta stjórnað flugi boltans. Högglangir kappar á borð við Dustin Johnson nota dræver með miklum fláa og 3-tré með miklum fláa – til þess að fá meiri stjórn á flugi boltans. Það er ekki nóg að slá langt, það þarf að ná góðu skori.“

„Tæknin sem er í boði í dag er dásamleg til þess að aðstoða kylfinga en það má ekki gleyma tilfinningunni. Það er ekki hægt að taka TrackMan græjuna með út á völl. Það er hægt að nýta þessi tæki til gagns en það má ekki ofnota þau. Mér finnst vanta að kylfingar gangi t.d. út á æfingsvæði og virði fyrir sér hvar 20 högg með 9-járninu hafa endað. Sjá meðaltalið og fá tilfinningu fyrir vegalengdinni sem er á milli boltanna.

Ef ég slæ 140 metra með 7-járninu þá veit ég að ég bæti kannski 5 metrum við þá vegalengd ef ég slæ eins fast og ég get. Og ef ég slæ aðeins lausar en vanalega þá fer boltinn 130 metra. Að mínu mati þurfa kylfingar að ganga út á svæðið þar sem boltarnir þeirra eru og fá tilfinningu fyrir því hversu miklu munar á höggum sem eru illa hitt og þeim sem eru vel hitt.“
Boltinn á alltaf að fara fram yfir holuna

„Mikilvægasta ráðið sem ég gef kylfingum er að boltinn á alltaf að fara fram yfir holuna í vippum og púttum. Ég nota ýmsar aðferðir til að fá krakka til þess að gera slíkt og það þarf að kenna þeim að hugsa þannig strax frá upphafi. Stærstu mistökin sem kylfingar gera eru högg sem eru of stutt, vipp og pútt sérstaklega. Ég hef alltaf sagt að boltinn eigi að fara fram yfir holuna, helst ekki of langt en alla vega nógu langt til að eiga möguleika að fara ofan í. Þessa eiginleika er hægt að þjálfa með ýmsum skemmtilegum æfingum og keppni.“

Þórður og Birgir voru betri en
Clarke og McGinley 


„Íslendingar eru þeir sterkustu í heiminum, þið hafið lifað af hérna á hjara veraldar í hundruð ára – oft við erfiðar aðstæður. Það er frábært að sjá að kylfingar frá Íslandi eru að gera góða hluti á atvinnumótaröðum.

Ég er sannfærður um að þeir verða fleiri í framtíðinni og einhverjir þeirra eiga eftir að ná alla leið á toppinn. Þið hafið gríðarlega möguleika. Sem dæmi nefni ég að Birgir Leifur Hafþórsson og Þórður Emil Ólafsson voru ótrúlega efnilegir þegar ég sá þá fyrst á unglingsárum þeirra.

Birgir Leifiur Hafþórsson og Þórður Emil Ólafsson.

Ég get alveg fullyrt að þeir voru með meiri hæfileika en kylfingar á borð við Darren Clarke og Paul McGinley sem ég þjálfaði hjá írska landsliðinu. Þeir voru allir á svipuðum aldri þegar ég var að þjálfa þessa kylfinga. Birgir Leifur og Þórður Emil voru með meira í „pokanum“ af hæfileikum á þeim tíma. Íslendingar geta því farið eins langt og þeir vilja í golfíþróttinni.“

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar, seth@golf.is 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ