Jón B. Stefánsson er nýr formaður Landsamtaka eldri kylfinga og tekur hann við af Guðjóni Sveinssyni. Aðalfundur LEK fór fram 12. desember s.l. og má lesa fundargerðina í heild sinni hér fyrir neðan.
Áfram í stjórn verða Gunnar Árnason og Magdalena Sirrý Þórisdóttir. Til viðbótar voru þau Baldur Gíslason og Elín Sveinsdóttir kosin í stjórn og varamenn þau Anna Snædís Sigmarsdóttirog Sigurjón Á. Ólafsson. Ragnar Gíslason var endurkjörinn endurskoðandi LEK.
Skýrsla stjórnar LEK í heild sinni:
Guðjón flutti skýrslu stjórnar, sem lá frammi í skrifuðu formi á fundinum (sjá skýrslu).
Stjórn og varstjórn störfuðu sem ein heild og voru 10 stjórnarfundir haldnir á árinu. Guðjón gerði grein fyrir samningum sem gerðir voru á árinu við 8 styrktaraðila og þakkaði þeim stuðninginn. Jafnframt þakkaði hann fráfarandi stjórnarmanni Tómasi Hallgrímssyni fyrir góða frammistöðu varðandi fjáröflunarþáttinn.
Guðjón gerði grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru á aldursflokkaskiptingum vegna viðmiðunarmóta LEK og afleiðingum ákvarðanna sem teknar voru á fundi ESGA í Noregi sl. sumar.
Formaðurinn skýrði einnig hvernig þátttakan var í einstökum mótum LEK sl. sumar og hverju þau mót skiluðu fjárhagslega.
Nýtt merki LEK var hannað á þessu starfsári og sýndi formaðurinn nýja merkið.
Guðjón sagði svo frá þátttöku landsliða LEK í mótum erlendis á sl. sumri og árangri þeirra.
Guðjón gerði í stuttu máli grein fyrir fjármálum LEK sem eru í góðu lagi og að lokum þakkaði hann fráfarandi stjórn gott samstarf.
Ársreikningur kynntur
Helgi Hólm fundarstjóri þakkaði Guðjóni fyrir skýrslu stjórnar og gaf honum aftur orðið til þess að skýra ársreikning LEK í fjarveru Magnalenu Sirrý Þórisdóttur, gjaldkera, (sjá ársreikning í skýrslu).
Eftir yfirferð ársreiknings var orðið laust um skýrslu og reikninga LEK.
Fyrirspurn kom um hvernig staðið var að hönnun merkis LEK og svaraði Guðjón því.
Í umræðu um skýrslu stjórnar gat Guðjón þess að láðst hefði að setja í skýrsluna samstarf við GSÍ, sem er mikilvægur samstarfsaðili LEK. Gat hann þess að samstarfið hefði batnað mjög á síðasta ári. GSÍ bauð LEK að vista heimasíðu sína á vef golfsambandsins og jafnframt stæði LEK nú til boða aðstoð og þjónusta frá starfsfólki á skrifstofu GSÍ .
Eftir umræður voru reikningar bornir undir atkvæði og samþykktir af öllum fundarmönnum.
Engar tillögur eða ályktanir höfðu borist fundinum og heldur ekki tillögur um lagabreytingar.
Síðasta verk fráfarandi formanns var að afhenda verðlaun fyrir Öldungamótaröðina. Í kvennaflokki án forgjafar var Ásgerður Sverrisdóttir hlutskörpust og Frans P Sigurðsson í karlaflokki. Í kvennaflokki með forgjöf sigraði María Málfríður Guðnadóttir og Karl Vídalín Grétarson sigraði í karlaflokki með forgjöf.
Kosning stjórnar
Samkvæmt fundarsköpum var komið að kosningu nýrrar stjórnar.
Tillaga kom fram um Jón B. Stefánsson sem nýjan formann og fékk hann gott lófaklapp og samþykki fundarins. Áfram í stjórn verða Gunnar Árnason og Magdalena Sirrý Þórisdóttir. Til viðbótar voru þau Baldur Gíslason og Elín Sveinsdóttir kosin í stjórn og varamenn þau Anna Snædís Sigmarsdóttirog Sigurjón Á. Ólafsson. Ragnar Gíslason var endurkjörinn endurskoðandi LEK.
Önnur mál
Undir liðnum önnur mál þakkaði Jón B. Stefánsson traustið og vonaði að samstarf stjórnarmanna yrði gott á komandi starfsári. Hann lagði áherslu á að samstarf við GSÍ þyrfti að auka og bæta og mikilvægt væri fyrir LEK á komandi ári að ná til stærri hóps eldri kylfinga til viðbótar við þá vinnu sem fylgdi mótahaldi og landsliðsmálum.
Einn fundarmanna kom með ábendingu varðandi mótahald að hægt væri að skipuleggja golfmót í miðri viku fyrir hóp eldri kylfinga sem hefðu frjálsari tíma og færri skuldbindingar á þeim tíma.
Helgi Hólm fundarstjóri þakkaði fráfarandi formanni og stjórn gott starf og sleit fundi.