Lokamót Eimskipsmótaraðarinnar, Goðamótið fer fram á Jaðarsvelli Akureyri um helgina og eru 59 skráðir í karlaflokkinn og 14 kylfingar í kvennaflokkinn. Leiknar verða 36 holur á laugardeginum og 18 holur á sunnudaginn. Jaðarsvöllur hefur sjaldan verið betri en nú og er Norðlenska aðalstyrktaraðili mótsins. Keppendum verður boðið í grillveislu á laugardagskvöldið í samstarfi við Vídalín veitingar.
Þrír efstu kylfingarnir á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar verða á meðal keppenda í karlaflokknum en Kristján Þór Einarsson, Íslandsmeistari í höggleik 2014, hefur nú þegar tryggt sér sigur í stigakeppninni á Eimskipsmótaröðinni og er hann stigameistari árið 2014 með 74.10,67 stig. Hörð barátta er á milli Bjarka Péturssonar úr Golfklúbbi Borgarnes og Gísla Sveinbergssonar úr Golfklúbbnum Keili um annað sætið en Bjarki er með 4948,75 stig en Gísli er með 4469,17 stig.