Íslandsmótið i golfi 2024 hófst í morgun kl. 7:30 en mótinu lýkur sunnudaginn 21. júlí.
Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, setti mótið með formlegum hætti.
Karen Sævarsdóttir, áttfaldur Íslandsmeistari, sló fyrsta högg mótsins í veðurblíðunni á Hólmsvelli í Leiru í morgun. Karen hóf ferilinn í Golfklúbbi Suðurnesja en hún sigraði á Íslandsmótinu í golfi átta ár í röð og er hún sigursælasti keppandi Íslandsmótsins frá upphafi.
Guðfinna Sigurþórsdóttir, móðir Karenar, var einnig viðstödd þegar mótið var sett í morgun. Guðfinna er fyrsta konan sem sigraði á Íslandsmótinu í golfi en það gerði hún árið 1967 þegar fyrst var keppt um titilinn í kvennaflokki. Guðfinna sigraði alls þrisvar á Íslandsmótinu og eiga mæðgurnar því ellefu titla saman.
Örn Ævar Hjartarson, Íslandsmeistari í golfi 2001, var kylfuberi Karenar í morgun – en hann var kylfuberi hjá Karenu í sex skipti af þeim átta sem hún sigraði.
Hér er myndasyrpa frá því í morgun þegar upphafshöggið var slegið og Íslandsmótið var sett.