Karl Ómar Karlsson ráðinn íþróttastjóri hjá Keili

Karl Ómar Karlsson. Mynd/seth@golf.is

Karl Ómar Karlsson hefur verið ráðinn íþróttastjóri Keilis frá og með 1. nóvember. Hann mun hafa yfirumsjón með allri þjálfun barna, unglinga, félagsmanna og afrekskylfinga Golfklúbbsins Keilis. Þetta kemur fram á heimasíðu Keilis.

Karl Ómar er menntaður PGA golfkennari en hann lauk HGTU golfkennaranámi frá Svíþjóð árið 2003. Hann hefur sótt ýmis námskeið á vegum norsku og sænsku golfkennarasamtakana ásamt því að koma að ýmsum verkefnum, þjálfun og kennslu og liðstjórn fyrir Golfsamband Íslands.

Í vor gaf Karl Ómar og fræðslunefnd GSÍ út leiðarvísi fyrir golfklúbba. Leiðarvísirinn hefur þann tilgang að leggja grunninn að uppbyggingu á þjálfun og kennslu og skipulagi í barna- og unglingastarfi í golfklúbbum.

Einnig er Karl Ómar í golfskólanefnd PGA sem er að fara af stað með nýtt golfkennaranám á Íslandi árið 2017.

Karl Ómar eða Kalli og hann er kallaður hefur starfað sem grunnskólakennari og golfkennari frá árinu 1993.

Árin 2005 til 2013 var Kalli íþróttastjóri Golfklúbbsins Leynis á Akranesi. Árin 2000 til 2005 starfaði Kalli sem PGA headpro hjá Eiker og RE golfklúbbunum í Noregi.

Björgvin Sigurbergsson sem starfað hefur sem íþróttastjóri Keilis undanfarin ár heldur áfram sínum störfum sem yfirþjálfari Golfklúbbsins Keilis.

Golfklúbburinn Keilir vill bjóða Kalla velkominn til starfa og óska honum velfarnaðar í starfi.

(Visited 829 times, 1 visits today)