Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar tók þátt á Evrópumóti golfklúbba í karlaflokki sem fram fór á Troi vellinum í Portúgal dagana 20.-22. október. Lið GKG var þannig skipað: Gunnlaugur Árni Sveinsson, Kristófer Orri Þórðarson og Hjalti Hlíðberg Jónasson. Andrés Jón Davíðsson var liðsstjóri.
Franski golfklúbburinn Golf de Cannes-Mougins stóð uppi sem sigurvegari og er Evrópumeistari golfklúbba í karlaflokki 2022. Alls tóku 21 klúbbur þátt. GKG tryggði sér keppnisrétt með því að sigra á Íslandsmóti golfklúbba 2022 í karlaflokki.
Keppnisfyrirkomulagið var með þeim hætti að leikinn var höggleikur. Þrír leikmenn voru í hverju liði og töldu tvö bestu skorin í hverri umferð. Alls voru leiknir 3 hringir eða 54 holur.
GKG endaði í 13. sæti af alls 22 klúbbum sem tóku þátt. GKG lék samtals á +29 höggum yfir pari.
Gunnlaugur Árni Sveinsson endaði í 15. sæti á +11 samtals, Kristófer Orri Þórðarson endaði í 40. sæti á +22 samtals og Hjalti Hlíðberg Jónasson endaði í 49. sæti á +26 samtals.
Þetta er í fyrsta sinn sem franski golfklúbburinn sigrar á EM. Frakkland er í fremstu röð á þessu sviði á þessu ári því í kvennaflokki er franski golfklúbburinn RCF La Boulie Evrópumeistari golfklúbba 2022.
Golf de Cannes-Mougins lék samtals á einu höggi undir pari vallar og var tveimur höggum betri en danski golfklúbburinn Smørum Golfklubb á +1 samtals. Í þriðja sæti endaði Murhof Golf Club frá Austurríki á +13 samtals.
Frakkinn Tom Vaillant lék best allra í mótinu en hann lék hringina þrjá á -2 samtals (74-70-70)