Site icon Golfsamband Íslands

Kirkjubólsvöllur einn af vinavöllum GR sumarið 2016

Ómar Örn Friðriksson, framkvæmdarstjóri GR og Jónatan M. Sigurjónsson, formaður GSG við undirritun samnings.

Frétt af heimasíðu GR.

Nú er komið að því að kynna sjötta vinavöll okkar GR-inga fyrir komandi sumar, Kirkjubólsvöllur hjá Golfklúbbi Sandgerðis. Það mun vera í fyrsta sinn sem þessi golfklúbbar fara í samstarf og okkur þykir virkilega ánægjulegt að tilkynna félagsmönnum þennan nýja kost. Golfklúbbur Sandgerðis var stofnaður 24. apríl 1986 og hefur verið í stöðugri uppbyggingu síðan. Völlurinn er strandarvöllur, staðsettur að Vallarhúsum, sem liggur mitt á milli Sandgerðis og Garðs. Hjá Golfklúbbi Sandgerðis er öll sú þjónusta sem kylfingar óska eftir þegar vinavöllur er heimsóttur – glæsilegt klúbbhús sem býður upp á fyrsta flokks veitingar og púttflöt þar sem hægt er að æfa stutta spilið.

Sömu reglur gilda á Kirkjubólsvelli eins og öðrum vinavöllum GR fyrir sumarið 2016. Félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 1600 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika Kirkjubólsvöll og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skulu félagar framvísa félagsskírteini sínu og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.

Útbúinn verður bókunarlinkur á síðu GR á www.golf.is undir rástímar – vellir.

Með þessari frétt hefur Golfklúbbur Reykjavíkur tilkynnt sex vinavelli fyrir komandi sumar en þeir eru Hústóftarvöllur Grindavík, Garðavöllur Akranesi, Hamarsvöllur Borgarnesi, Svarfhólsvöllur Selfossi, Strandarvöllur á Hellu og nú Kirkjubólsvöllur í Sandgerði. Sjöundi vinavöllur GR verður tilkynntur í næstu viku.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Ómar Örn Friðriksson, framkvæmdarstjóra GR og Jónatan M. Sigurjónsson, formann GSG við undirritun samnings.

Kær kveðja,
Golfklúbbur Reykjavíkur

Exit mobile version