Gleðilegt nýtt ár kæru kylfingar
Um leið og ég sendi ykkur öllum mínar bestu nýárs- og hátíðarkveðjur með ósk um farsæld, hamingju og heilbrigði á árinu 2022, er við hæfi að staldra stuttlega við árið sem liðið er og það helsta sem framundan er á vettvangi Golfsambands Íslands.
Ný stjórn kom saman að loknu Golfþingi og hefur fyrsta verkefni nýrrar stjórnar verið að stilla upp verkefnum og áherslum með tilliti til stefnu sambandsins. Árið 2021 var eitt besta golfsumar sögunnar með tilliti til fjölda iðkenda og reksturs flestra golfklúbba á landinu. Þrátt fyrir að Ísland hafi ekki farið varhluta af áhrifum Covid-19 má segja að golfhreyfingin í heild hafi staðist álagið og gott betur. Okkur kylfingum hefur gefist kostur að stunda okkar íþrótt og njóta útiverunnar með kylfu og kúlu í hönd. Og það hafa gefist enn fleiri tækifæri í þessum aðstæðum. Sem dæmi þá höfum við náð að kynna íþróttina fyrir enn fleirum. Auk þess sem við höfum náð aukinni virkni á ný með yngri aldurshópa sem sáu golfið sem góðan kost á tímum heimsfaraldurs.
Maður óskar þess að árið í ár muni ekki einkennast um of af áhrifum heimsfaraldursins. Viðbragðshópur Golfsambandsins sem var stofnaður vorið 2020 og er skipaður 12 fulltrúum frá 10 golfklúbbum af öllu landinu ásamt fulltrúum úr stjórn GSÍ, mun áfram leiðbeina kylfingum vegna Covid-19 og vera í virku samtali við ÍSÍ og yfirvöld. Við kunnum orðið að aðlaga okkur ágætlega en þó er ekki ofsögum sagt að seigla og þrautseigja eru mikilvægir eiginleikar við slíkar aðstæður.
Íþróttafólk ársins
Venju samkvæmt útnefndum við kylfinga ársins. Atvinnukylfingarnir okkar þau Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Golfklúbbnum Keili, og Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur voru valdir kylfingar ársins 2021. Útnefningin hófst árið 1973 og frá árinu 1998 höfum við valið karl og konu. Þetta er því 24. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í annað sinn sem Guðrún Brá fær þessa viðurkenningu og í þriðja sinn sem Haraldur Franklín er kylfingur ársins. Við erum feykilega stolt af þeim árangri sem þau náðu á árinu og verður spennandi að fylgjast með þeim í ár á alþjóðavettvangi ásamt öðrum atvinnukylfingum sem reyna fyrir sér á stóra sviðinu á komandi árum.
Framtíðin er björt
Landsliðsfólkið okkar kom saman fyrir áramót. Ólafur Loftsson, afreksstjóri Golfsambands Íslands, valdi 39 kylfinga í landsliðshópinn sem mun hittast alls sjö sinnum í vetur. Landsliðsverkefnin í ár eru ærin. Evrópumót landsliða fer fram í júlí og Heimsmeistaramót karla og kvenna í Frakklandi í ágúst þar sem keppt er á Le Golf National vellinum en sá völlur hýsti t.a.m. Ryder Cup keppnina árið 2018.
Síðustu vikur gafst mér kostur á að fylgjast með unga afreksfólkinu okkar taka þátt í mótaröðum í Bandaríkjunum yfir hátíðarnar og er sífellt að myndast þéttara samfélag kylfinga og aðstandenda sem tekur þátt í opnum mótum yfir vetrarmánuðina utan landsteinanna. Smám saman verður til mikilvæg reynsla og þekking og í auknum mæli er verið að æfa og keppa við kjöraðstæður víðar en á Íslandi. Allt kostar þetta mikinn tíma og fyrirhöfn og dýrmætt að þekkingu og reynslu sé deilt manna á milli.
Framtíðin er sannarlega björt á mörgum sviðum. Hróður Íslands sem áfangastaðar fyrir erlenda kylfinga fer víða og ferðamönnum fjölgar sem vilja í golf. Og gróskan er ekki bara mikil í starfi golfklúbba, heldur einnig í starfi samtaka á borð við Landssamtaka eldri kylfinga (LEK), Samtök íþrótta- og golfvallarstarfsmanna á Íslandi (SÍGÍ), Golfsamtaka fatlaðra á Íslandi (GSFÍ), PGA, og Golf Iceland.
Fyrstu sjálfbærniverðlaunin afhent
Það er ánægjulegt að sjá íslenska golfklúbba fara fram sem fyrirmynd á heimsvísu í golfheiminum. Fjallað var um bjarta framtíð íslenska golfsins á CNN á liðnu ári. Þar vöktu athygli fjárfestingar í innanhúsaðstöðu og sjálfvirknivæðing í umhirðu golfvalla. Það er ekki í fyrsta sinn sem íslenskir golfvellir hljóta lof í íslenskum miðlum fyrir framsækni og gæðastarf. Hér á landi fjárfestum við í rannsóknum og getum státað okkur af fremstu sérfræðingum veraldar í golfvallarfræðum. Það er gaman að sjá slíkt skila sér í alþjóðlegri umfjöllun. Sjálfbærniverðlaun Golfsambands Íslands voru afhent í fyrsta sinn á Golfþingi 2021 og er það til marks um þá þróun sem er að eiga sér stað í heiminum og áherslur hreyfingarinnar.
Spennandi golftímabil framundan
Drög að mótaskrá GSÍ fyrir árið 2022 voru lögð fram á Golfþinginu í nóvember og mun keppnistímabilið hefjast í maí samkvæmt venju og síðustu hefðbundnu mótin fara fram í september. Undirbúningur í mótahaldi sumarsins er því kominn vel af stað og nær það hápunkti dagana 4. -7. ágúst þegar Íslandsmótið í golfi fer fram í Vestmannaeyjum.
Fyrir utan mótaraðir GSÍ þar sem allir aldurshópar geta fundið sér verðug verkefni mun Golfklúbburinn Oddur í Garðabæ halda Evrópumót stúlknalandsliða í golfi. Evrópska golfsambandið, EGA, er framkvæmdaraðili mótsins ásamt Golfklúbbnum Oddi og GSÍ. Á mótinu keppa fremstu áhugakylfingar Evrópu 18 ára og yngri og er þetta í annað sinn sem Oddur kemur að framkvæmdinni. Búast má við vel á annað hundrað keppendum, þjálfurum og fylgdarliði frá 20 löndum.
Á nýju ári verður einnig ráðist í nýjungar í mótahaldi þegar GSÍ kemur að framkvæmd rafíþróttagolfmóts í golfhermum en það mun verða kynnt á allra næstu dögum. Um mótaröð á landsvísu er að ræða og telur stjórn það í takt við þá þróun sem er að eiga sér stað í íþróttinni. Slíkt mót mun falla undir annað mótahald í starfsemi sambandsins og er hér um skemmtilegt tilrauna- og samstarfsverkefni að ræða sem hefur ákveðin útbreiðsluáhrif.
Æfingar og keppni
Það er margt sem bendir til þess að lífið muni smám saman komast í eðlilegt horf á nýju ári og má reikna með að golfvellirnir iði af lífi á komandi sumri. Auk þess geta kylfingar æft sig sem aldrei fyrr í golfhermum og er ánægjulegt að sjá golftímabilið lengjast í báða enda.
Fyrir hönd stjórnar GSÍ þakka ég ykkur kylfingum nær og fjær fyrir góð samskipti og samveru á liðnu ári. Golfhreyfingunni í heild og sjálfboðaliðum þakka ég frábær störf og góð viðkynni á liðnu ári. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs.
Megi sveiflan vinna með okkur næstu misserin, enda held að ég því sé ekki logið að því meira sem við æfum, þeim mun heppnari verðum við!
Hulda Bjarnadóttir
Forseti Golfsambands Íslands